Glíman við Grímseyjartröllið

Deila:

Leon Ingi Stefánsson, 17 ára námsmaður, brá sér í tvo róðra með línuskipinu Tómasi Þorvaldssyni frá Grindavík nú í júlí. Róið var frá Siglufirði eins og oftast á sumrin. Kvótinn fékk Leon til að skrá dagbók í þessum tveimur túrum og gerði hann það vel. „Reynslubankinn er fúlgunni ríkari,“ segir Leon og tekur ofan hattinn fyrir íslenskum sjómönnum.  Dagbókin fer hér á eftir.

Tómas Þorvaldsson landa á Siglufirði. Ljósmund Guðmundur Gauti Sveinsson.

Tómas Þorvaldsson landa á Siglufirði. Ljósmund Guðmundur Gauti Sveinsson.

Dagur 1

Þetta er aðeins annar túrinn minn á sjó en fyrsti hér um borð og vissi því ekki alveg við hverju átti að búast af mannskapnum. En mér líkar mórallinn vel og allir hressir. Við leystum landfestar klukkan 16:00 og sigldum frá Siglufirði að miðunum í 3-4 tíma. Fyrsta vaktin var stutt, eða 2 tímar og var ég þokkalega sáttur með það til að byrja með. Fyrstu kynni af áhöfninni voru góð, þetta eru skemmtilegir strákar frá aldrinum 16 til 60 ára og hver öðrum ruglaðri ( en á góðan hátt).

Dagur 2

Fyrsta alvöru vaktin í dag var langt í slæm þótt við höfðum ekkert rakað fisk í dallinn. Ég var á vakt í 12 tíma en fæ tvær klukkutíma matarpásur. Vinnan er ekki sérlega erfið sem slík en eftir langan vinnudag verða vöðvarnir stífir og finnst mér þá gott að teygja á og svona. Ég lærði ýmislegt í dag. Þar á meðal „lærði” ég á eina ógnvænlegustu vél okkar tíma; uppstokkarann, sem ég hef lengi verið smeykur við. Einnig lærði ég það að það er ekki öllum sjálf gefið að kunna á þvottavélar… Fyrstu kynni mín voru ekki einkunn upp á 10 allavega.
Það er mikið hlegið um borð og hugsa ég að ég gæti ekki hafa verið heppnari með skip né áhöfn, kokkinn þá sérstaklega sem tekst að gera jólamat úr samloku. Ég deili með honum herbergi og hefur hann verið mér einstaklega góður. Hugsa að ef stjórnmálamenn hefðu hjarta í sama formi stæði 60% af heiminum í betri málum. Sjóveikin hefur ekki ennþá bankað á dyrnar og er ég öllum heilögum öndum þakklátur miðað við síðustu kynni svo lítið sé sagt. En hún er á topp 3 lista yfir verstu upplifanir 17 árs ævi minnar.

Dagur 3

Of fljótur á mér… Hel***** andsk***** sjóveikis kvikindið mætti mér með opnum örmum kl 10 í morgun og mér leið eins hlið helvítis hefðu opnast í þörmunum á mér. En áfram gakk skal það víst vera. Eftir 4 tíma baráttu hafði ég betur og losnaði við ólguna í maganum þökk sé góðum mat og fersku lofti. En ég bað strákana um að leyfa mér að vera aukavakt á rúllu því lyktarskynið mitt hafði stytt þolmörkin fyrir reykingarlykt um töluvert magn og voru þeir móttækilegir fyrir bón minni. Ég sagði í gær að ég hefði „lært” á uppstokkarann. En það var víst „overstatement”. Ég var látinn prufa að standa einn við hann og leiddu 15 mínútur það í ljós að ég á ennþá margt ólært hvað varðar hnúta… En eins og ég sagði er ég heppinn með áhöfn og sýna þeir mér þolinmæði fyrir „hálfvitagang” ef mér leyfist að orða það þannig. Ég er alltaf á höttunum fyrir því að læra eitthvað nýtt eða betri aðferðir að einhverju og skilar það mismiklum árangri. Í dag slitnaði bauja af línunni og fyrst þær eru svo fokdýrar var eytt tæpum hálftíma í að eltast við hana. Ég stóð og fylgdist með og reyndi að læra eitthvað af strákunum sem allir voru á samstilltu verkefni í að ná henni um borð. En ég er ennþá að klóra mér í hausnum yfir því hvað Þetta var flókið ferli sem halda mætti að væri einfalt. En það var ekki bara að kasta krók í sjóinn og hífa um borð heldur komu um 20 mismunandi hnútar við sögu. Note to self:  „ekki detta í sjóinn” – þér er ekki komið um borð aftur eins og skot. En heilt yfir er ég sáttur með daginn og stefni á að sýna þessum uppstokkara hver ræður á morgun.

Dagur 4

Ég var ræstur kl 09:30 eftir 9 tíma svefn en ég hélt það væri verið að fíflast í mér því með guð sem vitni gat ég svarið það að ég var nýkominn upp í koju. En sú var ei raunin. Ég mætti uppstokkaranum snemma í dag og hófust þá leikar. Ég henti í hann öllu sem ég átti hvað varðar hnútagerð og snerpu en tórði ekki nema í 25 mín. Þá kom hinn hásetin og tók við af særðum stríðsmanni sem var enginn jafnoki uppstokkarans öfluga. En ég sleikti bara sárin og hélt áfram að reyna.

Samviskan mín lét heyra í sér í dag en ég varð múkka greyi sem flæktist í línunni að bana. Eitt andartak stóð ég á rúllunni í logni og sól svo lít ég undan sjónum til að blóðga nokkra þorska, það næsta var kominn gargandi brjálaður múkki með línunni sem var ekki sáttur með framkomu línubátsins, og ég í snöggræði mínu tek upp gogginn og reyni að skófla honum út fyrir, en það varð dauðasök hans. Vonandi er hans ekki saknað. Til fjölskyldu og vandamanna sendi ég samúðarkveðjur. Fyrir þá sem ekki vita er lestin þar sem fiskurinn safnast í kör og er flokkaður eftir aðgerð. Ég skottaðist niður í dag og var þar að sinna mínu með fæturna í sitthvoru karinu þegar báturinn fer í velting og ég renn beint með tvíburabróðirinn á milli karanna. Ég öskra af sársauka og hrekk upp og skelli hausnum beint í einhverjar pípulagnir. Á þessu sársaukafullu augnabliki á tveimur endum segir Jón háseti gullkorn dagsins; „þetta er vont, en það venst” sem greinilega hefur lent í svipuðu tjóni. Harka sjómanna klikkar seint.

Við siglum að Siglufirði í nótt og þar verður landað þeim afla sem við náðum að skrapa upp úr Atlantshafinu.

Dagur 5

Ég vaknaði alveg eitraður kl 12:30 í morgun eftir langa baráttu í gærnótt við flugur með aldrenalín fíkn. Þær hættu ekki að djöflast í mér eða símanum mínum þrátt fyrir öflugar hótanir mínar um að lífláta þær eins og múkka greyið ef þær létu mig ekki í friði. Ég fékk svefnfrið um 02:00 leytið og var þakklátur fyrir uppgjöf þeirra. Það var skítaveður á Siglufirði og hélt ég mér því bara inni í Tómasi og horfði á sjónvarpið með strákunum. Vaktformaðurinn stakk upp á því að við settum á okkur maska í tilefni af kósý siglingu að miðunum. Og gerðum við það nokkrir hugaðir. Hér fylgja myndir af tveim flottum.

Leon maski 2

Ekki fá veðurguðirnir plús í kladdann í dag en þeir sjá til þess að minna mig reglulega á það að ég sé enginn konungur hafsins og skammta þeir mér vissa sjóveiki af og til. En Bjarni kokkur var að elda pönnusteikta lúðu í kvöldmat og ekki gat ég látið sjóveiki né lystarleysi skemma það fyrir mér og reif mig upp af rassgatinu.

Dagur 6

Það var háð mikil orrusta á rúllunni í morgun.

Ég byrjaði daginn á rúllunni stirður í augum og máttvana eins og ég er flesta morgna. Eftir dágóða stund af engu hélt ég að ofsjónir væru byrjaðar að hrjá mig en ég var alveg á því að það hefði komið hákarl á línuna . Hjartað hamraði eins og bassabox að spila basshunter og ég stóð kyrr eins og steinn. Þegar ógnarveran nálgaðist yfirborðið hafði ímyndunaraflið skrollað í gegnum allar jaws myndirnar 3x sinnum í hausnum á mér. En mér til mikillar ánægju var þetta einungis risavaxinn þorskur. Ég goggði af alefli í hausinn á honum og slitnaði þá þorskurinn af línunni, og hékk á gogginum. En dugði það ekki til og slitnaði hann undan eigin þunga. En ég hafði ekki sagt mitt síðasta við ófreskjuna og tók í hakann sem rétt dugði til þess að haka í tálknið á honum. Ég beitti hverri einustu vöðvafrumu í að hífa dýrið upp þarna kl 10:30 á mánudagsmorgni og fór það svo að Leon hafði betur í orrustunni við Grímseyjartröllið.
Leon á sjó 2

 

Dagur 7

Ég mætti ferskur á rúlluna í morgun og bjóst við því vanalega. (Lítið af fiski) en eftir 15 sekúndur hrúguðust svoleiðis fiskar upp að ég hafði ekki við því að blóðga þá. Þorskar, karfar og keilur dældust upp með línunni í öllu þeirra veldi stanslaust í góða þrjá tíma og margir þeirra ákváðu það að fyrst ég væri hvort eð er kominn á fullt þá væri ekki verra að detta aftur í sjóinn og halda mér í formi með hakanum. Eftir svolitla stund var blóðgunar karið spreng fullt og fyrir hvern fisk sem Leon litli náði að blóðga flugu fimm aðrir upp með línunni. Besti rekkinn var með tæpa 500 fiska. Þegar hinir hásetarnir sáu fiskiríið kom bros á vör og var sunginn lofsöngurinn: „money, money, money ,moneeey…. Moooneey“. Ég held það sé óhætt að segja að ég fái að heyra líkamann öskra í kvöld. Ekkert sem heimatilbúna apótekið frá mömmu getur ekki lagað. Hann Bjarni kokkur gerir samt vel við okkur strákana fyrir erfiðið með steiktum hlýra í raspi beint af línunni. 5 stjörnur frá mér.

Áhöfnin hefur fylgst vel með stelpunum á EM út túrinn og Bjarni kokkur heldur uppi stemningunni að vanda.

Lokaorð

En þá er komið að lokaorðum frá mér ég vill ég taka það fram að þetta hefur verið skemmtileg reynsla og upplifun hérna um borð. Lífið um borð er einfalt að mestu leyti þar til eins og ljótu hálfvitarnir segja „stundum slaknar veberinn of mikið og þá slitnar einhver víííír…. Þá eru góð ráð dýr.” Reynslubankinn er fúlgunni ríkari og fer ég ánægður heim með flugi á morgun. Að lokum vill ég taka fram að þótt ég noti ekki hatta þá tek ég einn ofan fyrir öllum sjómönnum landsins, fyrrverandi, núverandi og næstkomandi. Þeir gerast varla harðari en þið!

Leon með hattinn (2)

Leon Ingi Stefánsson

 

 

 

Deila: