Makríll veiðist fyrir austan og vestan

Deila:

Víkingur AK er væntanlegur til Vopnafjarðar seint í kvöld með rétt tæplega 600 tonn af makríl sem fengust í veiðiferð á miðunum úti af Suð-Austurlandi. Að sögn Hjalta Einarssonar skipstjóra í samtali á heimasíðu HB Granda hefur makríllinn veiðst jafnt fyrir austan sem vestan en skip frá Vestmannaeyjum og tveir togarar hafa m.a. verið að makrílveiðum í Grindavíkurdjúpi.

,,Við vorum að veiðum á Papagrunni, í Lónsdjúpi og Berufjarðarál og fengum strax 170 tonn í fyrsta kasti. Síðan tregðaðist veiðin og hlutfall síldar jókst. Það er búin að vera kaldafýla á miðunum marga undanfarna daga og það hefur torveldað okkur leitina. Í morgun fengum við hins vegar 100 tonn af hreinum makríl,“ segir Hjalti en hann segir erfitt að átta sig á magni makríls við suðurströndina. Vera megi að það sé mikið en makríllinn er þá mjög dreifður.

,,Það eina, sem er ljóst, er að smærri makrílinn vantar í aflann. Meðalvigtin er áfram um eða yfir 400 grömm. Það er nóg af æti fyrir fiskinn og makríllinn sem við höfum verið að veiða er mjög vel haldinn,“ segir Hjalti Einarsson.
 

 

Deila: