Makríll veiðist fyrir austan og vestan
Víkingur AK er væntanlegur til Vopnafjarðar seint í kvöld með rétt tæplega 600 tonn af makríl sem fengust í veiðiferð á miðunum úti af Suð-Austurlandi. Að sögn Hjalta Einarssonar skipstjóra í samtali á heimasíðu HB Granda hefur makríllinn veiðst jafnt fyrir austan sem vestan en skip frá Vestmannaeyjum og tveir togarar hafa m.a. verið að makrílveiðum í Grindavíkurdjúpi.
,,Við vorum að veiðum á Papagrunni, í Lónsdjúpi og Berufjarðarál og fengum strax 170 tonn í fyrsta kasti. Síðan tregðaðist veiðin og hlutfall síldar jókst. Það er búin að vera kaldafýla á miðunum marga undanfarna daga og það hefur torveldað okkur leitina. Í morgun fengum við hins vegar 100 tonn af hreinum makríl,“ segir Hjalti en hann segir erfitt að átta sig á magni makríls við suðurströndina. Vera megi að það sé mikið en makríllinn er þá mjög dreifður.
,,Það eina, sem er ljóst, er að smærri makrílinn vantar í aflann. Meðalvigtin er áfram um eða yfir 400 grömm. Það er nóg af æti fyrir fiskinn og makríllinn sem við höfum verið að veiða er mjög vel haldinn,“ segir Hjalti Einarsson.