Saltfiskkökur

Deila:

Jæja. Nú erum við þar sem sólin sjaldan skín og þá er bara að njóta einshvers annars en sólar; til dæmis að borða góðan mat. Og hvað er betra en þegar rigningin lemur rúðurnar og trén slást til í rokinu, en að gleðjast yfir því að þurfa ekki að vökva lóðina. Þá eldar maður bara góðan mat og nýtur þess að borða hann innanhúss og vökva lífsblómið samkvæmt ráðlegum dagskammti.
Við fundum þessa fínu saltfiskuppskrift á heimasíðu Hagkaupa og mælum eindregið með henni í yndislegan kvöldverð við kertaljós, kærleik og kannski meira.

Innihald:

225 g saltfiskur, útvatnaður
1 stk. lítill laukur, fínt skorinn
2 stk. hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
1 stk. lárviðarlauf
350 ml mjólk
80 ml hvítvín
200 g kartöflur, soðnar í bitum
1 búnt steinselja, söxuð
1 stk. eggjarauða
ögn múskat
1 msk. hveiti
500 ml olía til steikingar
pipar

Aðferðin:

Þetta eru stökkar og bragðgóðar saltfiskskökur sem frábært er að bera fram með góðu salati og möndlu-aioli.
Setjið mjólk, lárviðarlauf, lauk, hvítlauk og hvítvín í pott og látið suðuna koma upp. Setjið saltfiskinn út í og sjóðið í 10-12 mín. Takið af hitanum og látið kólna í pottinum. Setjið fiskinn í skál með soðnum kartöflubitum þegar mjólkin er orðin volg. Bætið steinselju, múskati, pipar, eggjarauðu og hveiti vel saman við. Kælið í 20 mín. Mótið litlar bollur og hitið olíuna í potti. Veltið bollunum upp úr hveiti og steikið í olíunni þar til að þær eru gullinbrúnaðar og steiktar í gegn.

 

Deila: