Aukinn skilningur á áhrifum hnattrænnar hlýnunar á vistkerfi sjávar
Fundur hátt settra embættismanna innan Evrópusambandsins og aðila úr ríkisstjórnum Brasilíu og Suður-Afríku var haldinn um miðjan júlí. Fundurinn var settur á í þeim tilgangi að fagna nýju samkomulagi um samstarf þessara aðila um að leggja meiri áherslu á að skilja tengslin á milli hnattrænnar hlýnunar og áhrif hennar á vistkerfi sjávar (bláa lífhagkerfið).
Matís tók þátt í þessum fundi en tvö verkefni, MareFrame og PrimeFish, fjalla með beinum og óbeinum hætti um efni fundarins en báðum þessum verkefnum er stjórnað af Matís, undir styrkri handleiðslu dr. Önnu Kristínar Daníelsdóttur (MareFrame) og dr. Guðmundar Stefánssonar (PrimeFish).
„Óhætt er að segja að þessi viðburður sé mikilvægt upphaf samstarfs þessara þjóða og annarra þjóða við Atlantshaf og því mikilvægt að Ísland hafi átt fulltrúa á þessum viðburði.
Til gamans má geta að nýtt verkefni, FarFish, sem Jónas R. Viðarsson hjá Matís stýrir, fjallar auk þess um þætti sem tengjast með beinum hætti efnistökum fundarins og snýr að veiðum evrópska fiskveiðiflotans utan lögsögu Evrópusambandsins,“ segir á heimasíðu Matís.
Nánari upplýsingar:
Samstarf Evrópu, Brasilíu og Suður-Afríku