Mikið óveitt á síðasta degi strandveiða í júlí

Deila:

Nú, í upphafi síðasta dags júlímánaðar á strandveiðum, vantar enn nokkuð upp á að leyfilegu aflahámarki sé náð á svæðum B, C og D. Það er fyrir Norður- Austur- og Suðurlandi. Á svæði B eru 16% óveidd, á svæði C 15% og á svæði D 31% óveidd. Veiðum á svæði A lauk um miðjan mánuðinn er leyfilegu hámarki þar var náð.

Staðan nú á svæði B er að þar hafa 133 bátar landað 716 tonnum í 1.235 róðrum. Meðalafli í róðri er 580 kíló og afli á bát að meðaltali 5,4 tonn. Eftir standa óveidd 135 tonn.

Á svæði C hafa 123 bátar landað samtals 843 tonnum í 1.226 róðrum. Meðalafli í róðri er 687 kíló og meðalafli á bát 6,9 tonn. Eftir standa óveidd 145 tonn.

Á svæði D hafa 196 bátar landað 268 tonnum í 508 róðrum. Meðalafli í róðri er 528 kíló og meðalafli á bát er 2,5 tonn. Eftir standa óveidd 119 tonn.

Sé litið á heildina eftir 16 veiðidaga í júlí hafa 587 bátar landað 2.834 tonnum í 4.381 róðri. Meðalafli í róðri er 647 kíló og meðalafli á bát eru 4,8 tonn. Óveidd eru 453 tonn af leyfilegum hámarksafla.

Deila: