Laxeldi mikilvægt í Skotlandi

Deila:

Rekja má sögu skosks fiskeldis 50 ár aftur í tímann. Upphaflega var litið á fiskeldið í Skotlandi sem lið í því að auka fjölbreytni atvinnulífs og útflutnings. Í dag er staðan hins vegar sú að fiskeldið er orðið stærsta útflutningsgreinin á sviði matvæla í Skotlandi.
Þetta kemur fram í grein sem Scott Landsburgh formaður Landssambands fiskeldisstöðva í Skotlandi ritaði nýverið. Heimasíða Landssambands fiskeldisstöðva fjallar um greinina með eftirfarandi hætti.

Stefnt að tvöföldun framleiðslunnar
Í grein Landsburg kemur ennfremur fram að lang mikilvægasti markaður fyrir skoskar fiskeldiafurðir er heimamarkaðurinn. Það er markaðurinn í Bretlandi. Útflutningsverðmæti laxafurðanna frá Skotlandi er nú um 500 milljónir sterlingspunda, eða tæpir 70 milljarðar íslenskra króna.
Heildarframleiðslan í skosku laxeldi nam um 170 þúsund tonnum í fyrra. Gert er ráð fyrir að heildarframleiðslan árið 2020 verði um 200 þúsund tonn. Markmiðið er að laxeldisframleiðslan tvöfaldist á næstu árum og verði þá að minnsta kosti um 350 þúsund tonn.

Átta þúsund störf – aðallega  í dreifbýlinu
Forsvarsmenn laxeldisfyrirtækjanna í Skotlandi leggja áherslu á að til þess að ná markmiðum sínum þurfi atvinnugreinin á að halda öflugu fólki með fjölþætta menntun og reynslu. Hafa fyrirtækin lagt sig fram um að kynna atvinnugreinina fyrir ungu fólki sem er að leggja út á menntabrautina. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar enda býður fiskeldisstarfsemi upp á fjölþætt atvinnutækifæri.
Talið er að skoskt fiskeldi skapi nú um átta þúsund störf, að lang mestu leyti í hinum dreifðari byggðum við ströndina á vestanverðu Skotlandi.

Hafa hlotið Label Rouge viðurkenninguna
Fyrir 25 árum hlutu skoskir laxeldisframleiðendur frösnku Label Rouge viðurkenninguna, „heiður sem er veittur fyrir afburða bragðgæði og gæðaframleiðslu“, segir Scott Landsburg í grein sinni. Skoskir laxaframleiðendur voru fyrstir til að fá þessa virtu viðurkenningu, utan Frakklands og enn þann dag í dag eru þeir einu skosku matvælaframleiðendurnir sem geta státað af henni.

Deila: