Nánara samstarf Breta og Færeyinga

Deila:

Sjávarútvegsráðherrar Færeyja og Bretlandseyja,  Høgni Hoydal og Michael Gove, eru sammála um að stuðla að nánu samstarfi þjóðanna á sviði sjávarútvegs. Ráðherrarnir funduðu í gær um borð í uppsjávarskipinu Högabergi í höfninni á Miðvogi á Vogey.

Á fundinum var farið yfir stjórnun fiskveiða í Færeyjum og þær grundvallarbreytingar á henni sem stjórnvöld hafa lagt fram á Lögþingi Færeyja.  Um borð í skipinu hitti breski sjávarútvegsráðherrann skipstjóra og áhöfn þess og fulltrúa útvegsmannafélags Færeyja.

Síðan héldu ráðherrarnir fundarhöldum áfram á hótel Miðvogi. Þeir voru sammála um að þegar Bretland verður sjálfstætt strandríki að lokinni útgöngunni úr ESB, muni það skapa aukna möguleika fyrir samstarfi landanna til framtíðar. Í viðræðum strandríkja um nýtingu sameiginlegra fiskistofna verði Bretar í framtíðinni sjálfstæður aðili. Jafnframt er framundan vinna við gerða sérstaks gagnkvæms fiskveiðisamnings milli Breta og Færeyja þar sem Bretar verða ekki lengur hluti af ESB og núverandi samningur Færeyja og ESB nær ekki lengur yfir bresk hafsvæði.

„Heimsóknir sem þessar þegar sjávarútvegsráðherrar annarra þjóða koma til Færeyja eru mjög mikilvægar fyrir hagsmuni Færeyinga og geta einnig lagt sitt að mörkum til að leysa önnur þýðingarmikil mál fyrir Færeyjar,“ segir Högni Hoydal.

 

 

Deila: