Mikill kostur að hafa Norðmenn með

Deila:

Gunnar Steinn Gunnarsson er ásamt bróður sínum Einari Erni frumkvöðull í laxeldi hér á landi. Hann er stjórnarformaður og einn eiganda félagsins Laxar fiskeldi sem stefnir að 24.000 tonna fiskeldi í Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði. Slátrun hefst á næsta ári í Reyðarfirði, en fjárfesting í verkefninu mun nema alls um þremur milljörðum króna áður en fyrstu tekjur koma.

„Ég fór til Noregs árið 1984 til að læra líffræði og lauk cand. scient.-gráðu frá Háskólanum í Bergen í fiskilíffræði og fiskeldisfræðum. Á sumrin starfaði ég við fiskeldi bæði á Íslandi og í Noregi. Mitt fyrsta stóra verkefni var árið 1992 en það var fólgið í því að ljósastýra laxaseiðum. Það voru ekki margir með þekkingu á því sviði þá.

Seiðið er ferskvatnsfiskur og þegar sá tími nálgast að það fer niður að sjó verða lífeðlisfræðilegar breytingar í fiskinum og hann breytist yfir í sjávarfisk. Það ferli heitir „smoltun“. Ferskvatnsfiskar mega ekki fá endalaust vatn inn í kroppinn og verða að halda ákveðinni seltu í líkamanum. En þegar niður í sjó er komið er vandamálið annað. Þá er hætta á að allt saltið fari inn í kroppinn en allt vatnið út úr honum. Stýringin á þessu er í tálknum fiskanna. Hægt er að stjórna þessu ferli með ljósastýringu sem gerir þá mönnum kleift að setja fisk út í sjó hvenær árs sem er. Meistaragráða mín var í þessum fræðum,“ segir Gunnar í samtali við ViðskiptaMoggann í dag. Viðtalið fer hér á eftir.

Næsta starf Gunnars var á Írlandi þar sem hann vann í hálft ár. Þar á eftir réð hann sig til Þrændalaga í Noregi til að vinna við matfiskaeldi. »Þar rak ég tvær sjókvíastöðvar í þrjú og hálft ár. Þá fékk ég tilboð um að reka laxasláturhús og rak það í nokkur ár. Ég hélt það yrði nú einfalt, en þegar á hólminn var komið reyndust ótal vörur sem hægt var að framleiða í slátruninni, mismunandi þyngdarflokkar, gæðaflokkar, hausinn á eða af, hálfur fiskur eða heill. Það er ótrúlegt hvað það var hægt að gera fjölbreytilegar vörur úr tiltölulega einfaldri framleiðslu.«

Árið 1999 ákvað Gunnar að fara út í laxeldi á Íslandi ásamt systkinum sínum, þeim Einari Erni, Guðmundi og Oddnýju. »Mér fannst undarlegt að menn sæju ekki tækifærin í íslenskum fjörðum þar sem náttúruleg skilyrði voru fyrir hendi. Við skoðuðum firði í öllum landshlutum en töldum að best væri að vera á Austfjörðum og sóttum um laxeldisleyfi í Berufirði árið 1999. Það hafði mikið að segja við staðarval að sveitarstjórn Djúpavogshrepps tók einstaklega vel í hugmyndir okkar. Umsóknarferlið var langt og strangt. Upphaflega ætlaði fyrirtæki sem hét Hydro Seafood í Noregi að vera með okkur en þeir entust ekki í þessum endalausa sniglagangi sem var hér í stjórnsýslunni, því það tók langan tíma að fá leyfið.«

HB Grandi skipti yfir í þorskeldi

Gunnar segir að þótt lítið hafi verið í gangi á þessum tíma hafi verið stundað fiskeldi á árum áður hér á landi, sem varð endasleppt. Aðspurður segir Gunnar ástæðuna þá að menn hafi notað íslensk laxaseiði sem pössuðu illa í eldi því fiskurinn varð svo snemma kynþroska. Markaðurinn vill ekki kynþroska fisk og því fór sem fór.

„Við fengum HB Granda til liðs við okkur og framleiddum á annað þúsund tonn af laxi á ári. Samstarfið gekk að mörgu leyti vel, en endaði með því að HB Grandi vildi skipta yfir í þorskeldi, sem var mikið talað um á þessum tíma en ég vissi að var dauðadæmt. Þeir keyptu okkur út úr félaginu og þá fór ég aftur til Noregs. HB Grandi hélt hins vegar áfram í þorskeldinu, sem gekk ekki upp hjá þeim. Útreikningar mínir sýna að ef við og HB Grandi hefðum haldið okkar striki væri hagnaður af þessu mörg hundruð milljónir króna á ári miðað við 8.000 tonna framleiðslu. Menn væru að gera það gott.“

Eftir samstarfið með Granda réð Gunnar sig sem framleiðslustjóra til Leroy í Noregi, þar sem hann stjórnaði 14 laxeldisstöðvum sem voru með samtals 32 þúsund tonna ársframleiðslu. „Ég var þar í nokkur ár og ákvað svo að fara í doktorsnám í fisksjúkdómafræðum sem ég mun klára um næstu áramót. Samhliða því ákvað ég svo að fara af stað í laxeldi á Íslandi á nýjan leik árið 2010 með góðu fólki.“

Gunnar segir að byrjað hafi verið að sækja um leyfi árið 2010, en ferlið sé langt. „Umsóknir taka rosalegan tíma og þetta er flókið ferli þar sem fjöldi stofnana hefur aðkomu. Við fengum leyfi til framleiðslu á 6.000 tonnum árið 2013. Það stóð alltaf til hjá okkur að sækja um heimildir til frekari framleiðslu þar sem stærðarhagkvæmni er lykilþáttur í þessari starfsemi. Þá sóttum við um 10 þúsund tonna framleiðsluheimildir til viðbótar í Reyðarfirði árið 2012. Miklar tafir hafa orðið í því ferli þar sem lögum og reglugerðum hefur verið breytt á meðan mál eru til meðferðar í stjórnsýslunni. Lengsta töfin var bið okkar eftir burðarþolsmati. Það er nokkur fjöldi af umsóknum til laxeldis í ferli hjá stofnunum ríkisins en því fer fjarri að leyfi fyrir þeirri framleiðslu verði að veruleika á einum sólarhring.

Eitt norskt leyfi er 780 tonn

Árið 2016 fengum við norskt eldisfyrirtæki inn sem meirihlutaeigendur sem heitir Måsøval Fiskeoppdrett AS. Þeir eru núna að vinna með okkur og eiga 53% í félaginu. Það hefur ekki verið auðvelt að fá Íslendinga sem fjárfesta. Við reyndum það lengi en það var engan áhuga að finna. Mér finnst það óskiljanlegt.“

Aðspurður segir Gunnar að leyfiskerfið hér sé ólíkt norska kerfinu. „Þar eru leyfin skilgreind miðað við hve mikið er hægt að rækta í ákveðnu rúmmáli af kví. Eitt norskt leyfi er þannig upp á 780 tonna framleiðslu. Svo reka menn þrjú til átta leyfi á hverri stöð. 780 tonna leyfi þýðir „hæsti leyfilegi lífmassi“ sem þú mátt hafa standandi í kvínni hjá þér frá fyrsta degi eða 780 tonn árið um kring. Hins vegar er hægt að framleiða mun meira með hverju leyfi, eða nálægt 1.400 tonnum. Hér heima er leyfakerfið þannig að það snýst um ákveðið magn á ári.“

Hvernig snýr þetta að fjárfestum, þessi óvissa sem felst í löngu ferli við leyfisveitinguna?

„Hún hefur fælandi áhrif, auk þeirrar staðreyndar að fiskeldi er og hefur alltaf verið áhættugrein. Norðmenn hafa mætt mörgum áföllum. Við Íslendingar hættum hins vegar þegar gaf á bátinn á sínum tíma hér en þeir héldu áfram og lærðu af reynslunni.“

Gunnar segir að það sé mikill kostur að hafa Norðmenn með sem fjárfesta í fyrirtækinu. „Norðmennirnir vita að fiskeldi gengur vel og illa. Ég hef trú á að fiskeldið muni vaxa og verða vegleg atvinnugrein hér á landi með þúsundum starfa við eldið og afleidd störf í hinum dreifðu byggðum. Menn hér verða að átta sig á því að uppbygging laxeldis er langhlaup.“

Spurður um umræðu í Noregi um neikvæð umhverfisáhrif í norsku fjörðunum, meðal annars um að lyf við laxalús væru að drepa rækju og annað lífríki í kring, segir Gunnar að því fari fjarri. Hér á landi heyrist ýmsar sögur um ástand norskra áa og laxastofna sem eigi ekki við nein rök að styðjast.

„Auðvitað hafa orðið breytingar í fjörðum eins og Hardangerfjord og Bognafjord en þær stafa ekki frá fiskeldi. Þar er að breytast samsetning lífs því hitinn í sjónum við vesturströnd Noregs hefur hækkað um 3-4 gráður á löngum tíma. Lífið er aldrei óbreytt ástand. En það má ekki kenna laxeldinu um allt og alls ekki um hlýnun jarðar,“ segir Gunnar og brosir.

Hann segir að vissulega hafi eitt og annað farið úrskeiðis í langri sögu Norðmanna í fiskeldi og laxalúsin sé þar stór vandi. „Lúsin er lík rækjunni. Lyfið sem drepur lúsina getur því drepið rækjuna líka, sem og humar og krabba. Hins vegar eru þessi efni mjög hvarfgjörn og þynningarhraði þeirra mikill. Á það er jafnframt að líta að bæði hér og í Noregi er mjög ströng löggjöf um notkun lyfja. Þessi lyf eru notuð í landbúnaði án þess að mönnum finnist neitt að því.

Sú staða hefur hins vegar komið upp í Noregi að lúsin varð ónæm fyrir mörgum lyfjum. Tóku menn þá til þess ráðs að blanda saman tveimur ólíkum lyfjum. Með því fékkst sterk blanda sem gat haft áhrif á rækju, humar og krabba í næsta nágrenni við kvíarnar. Þessari blöndunaraðferð var hætt vegna óviðunandi afleiðinga.

Eldismenn eru sífellt að leita leiða til að drepa lúsina með umhverfisvænum hætti, til dæmis með því að spúla fiskinn með heitu vatni eða bursta lúsina burt. Það nýjasta er að nota hrognkelsi sem étur lúsina, sem virkar ágætlega.“

Allur búnaður er vottaður í dag

Hverjir eru stærstu áhættuþættirnir í laxeldi?

„Það eru sjúkdómar. Slysasleppingar voru stór áhættuþáttur í Noregi en eru það ekki lengur. Stærsta slysaslepping þar var 921 þúsund fiskar sem gerðist í kröftugum stormi árið 2006. Í kjölfar þess var reglugerðum breytt og búinn til staðallinn NS9415, sem gerði allt aðrar kröfur til búnaðar, og öll okkar tæki uppfylla þessi skilyrði. Árið 2012 var það skilyrðislaus krafa að allur búnaður í Noregi væri vottaður samkvæmt staðlinum NS9415.“

Hve stór er fjárfestingin í dag í Löxum fiskeldi?

„Félagið hefur nú fjárfest í tækjum og lífmassa fyrir rúmar fimmtán hundruð milljónir íslenskra króna. Reiknað er með að sú fjárhæð tvöfaldist áður en fyrsta laxi verður slátrað veturinn 2018.“

Norðmenn vilja stunda laxeldi í „páskaeggjum“ úti á rúmsjó

Á meðan íslensk laxeldisfyrirtæki einbeita sér að laxeldi í hefðbundnum sjókvíum hefur verið nokkur umræða í Noregi um nýsköpun í greininni, þar sem leitað er nýrra leiða við fiskeldið eins og að færa það upp á land eða út úr fjörðunum. „Ástæðan fyrir því að menn eru að stuðla að nýjum lausnum í greininni í Noregi er að ákveðið hefur verið að halda aftur af laxeldinu vegna vandamálsins með laxalúsina. Menn vilja sem sagt auka eldið en þetta atriði hefur haldið aftur af mönnum. Búin voru til græn eldisleyfi sem voru háð skilyrðum og báru með sér hvata að nýjum hugmyndum. Ein þeirra var að gefa út leyfi til að rækta lax utan norsku skerjagarðanna í sterkbyggðum kvíum eða uppi á landi. Ef þú komst með slíka hugmynd og hafðir fjármagn gastu fengið framleiðsluleyfi til að prófa hugmyndina. Þessi nýsköpun á að vera við hliðina á þeim framleiðsluaðferðum sem eru við lýði í dag en eldi Norðmanna í sjókvíum er einmitt það sem gerir þá samkeppnishæfa á markaðnum. Ein þessara hugmynda sem er í vinnslu er egg, sem er eins og páskaegg, sem flýtur í sjónum með laxi innan í.“

Menn verða að finna leiðir til að vaxa áfram

Gunnar segir að þeir sem standa að þeirri þróun hafi sótt um sex til átta leyfi en ekki fengið nema tvö, sem þykir of lítið til að það borgi sig að fara af stað. „Ástæðan fyrir því að þeir fá ekki fleiri leyfi er sú að erfitt yrði að afturkalla þau ef hugmyndin gengi ekki upp. Menn verða að finna leiðir til að laxeldið geti haldið áfram að vaxa í Noregi án þess að það skili auknu álagi á umhverfið. En staðan á þessu ákveðna máli er þó enn þannig að ekkert »páskaegg« er komið út í sjó og menn eru núna að ræða um að skila leyfunum til baka.“

Lax og lús samferða í þúsundir ára

Mikið hefur verið rætt um vandamál tengd svokallaðri laxalús í umræðu um laxeldi hér á landi, enda hefur hún valdið miklum vandræðum hjá norskum eldisfyrirtækjum. En hvaðan kemur þessi lús?

„Lúsin tilheyrir laxinum og er að finna á flestum villtum laxi. Hún verður kynþroska þegar laxinn er á leið upp í ána og þar mætir hún seiðunum sem eru á leið til sjávar. Þá sleppir lúsin hrognunum sínum og þau finna þá seiði og fara með þeim til sjávar. En þegar þú ert kominn með stóra kví með miklum þéttleika verður þéttleikinn í lúsinni ekki minni heldur. Og það er það sem hefur verið vandamálið. En þetta er mikill kostnaður fyrir Norðmenn.“

Gunnar segir að minna hafi verið um lús í laxeldinu í Noregi en breyting hafi orðið þar á fyrir 10 árum. „Árið 2008 ákvað norska matvælastofnunin að ekki mættu vera fleiri en ein kynþroska kvenlús á öðrum hverjum fiski. Margir sögðu þá að þetta væri versta ákvörðun sem hægt væri að taka. Ástæða þess er sú að með aukinni tíðni aflúsunar yrði lúsin ónæm fyrir lyfjunum sem notuð voru gegn henni á mettíma. Og þetta reyndist hárrétt. Þetta fór úr að vera vaxandi vandamál í að verða stórslys á þremur árum. Ég held að menn hafi ætlað sér að ganga af lúsinni dauðri án þess að átta sig á að það var óraunhæft þar sem þessar tvær tegundir hafa búið saman í þúsundir ára.“

Gunnar lýkur doktorsnámi frá Háskólanum í Bergen um næstu áramót, en verkefni hans fjallar einmitt um sníkjudýr sem tengist laxi og lús. „Þetta sníkjudýr lifir í laxinum og lúsinni eingöngu. Þetta er einfrumungur sem fjölgar sér í æðaveggjunum og fer svo út í húðina þar sem lúsin étur sníkilinn. Einfrumungurinn framleiðir ógrynni af mjög þolnum gróum sem safnast upp í lúsinni í slíku magni að hún springur og drepst. Við það sleppur út mikið magn af grókornum sem fljóta á yfirborði sjávar. Einfrumungurinn finnst í laxi um allan heim.“

Gunnar segir að ritgerð sín fjalli einnig um tálknaveiki sem orsakast af fjölda sýkla sem drepa fiskinn og þá helst á haustin. „Samkvæmt mínum birtu niðurstöðum lítur út fyrir að ef smitstigið er hátt af einfrumungnum verður dauðatíðni helmingi meiri hjá tálknaveikum fiski.«

Gunnar segir að ein ástæðan fyrir því að hann ákvað að fara í doktorsnám hafi verið aukin meðvitund um sjúkdóma í löxum. »Í dag er lagt meira upp úr því að meðhöndla sjúkdóma og verjast þeim. Þetta er eitt af því sem við þurfum að passa hér á landi, að allt sé vottað og sótthreinsað.“

 

 

Deila: