Blængur úr grálúðutúr

Deila:

Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gærmorgun að aflokinni veiðiferð sem tók 23 daga. Haldið var til veiða 10. júlí og megináhersla lögð á grálúðuveiðar. Theodór Haraldsson skipstjóri segir að veitt hafi verið á Austfjarðamiðum allan túrinn.

„Við fórum rétt norður fyrir Langanes og suður í Berufjarðarál en vorum langmest í Seyðisfjarðardýpinu og út af Héraðsflóanum. Aflinn er 300 tonn upp úr sjó að verðmæti 130 milljónir en auk grálúðunnar er þorskur og ufsi uppistaðan. Það var fínasta veður allan túrinn og það skiptir alltaf miklu máli,“ sagði Theodór í spjalli á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Blængur mun væntanlega halda til veiða á ný á mánudagskvöld.

 

Deila: