Lúxusveður
Beitir NK kom til Neskaupstaðar sl. laugardag með um 700 tonn af makríl, en nokkur síld var í aflanum. Lokið var við að vinna aflann í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í fyrrinótt og þá hófst löndun úr Berki NK sem var með 670 tonn.
Bjarni Ólafsson AK var í gær á miðunum og hafði heimasíða Síldarvinnslunnar samband við Runólf Runólfsson skipstjóra um klukkan 10 í morgun, en þá var Bjarni að leita í Litladýpinu. „Veiðin er afar misjöfn. Stundum er góð veiði en stundum finnst nánast ekkert. Fiskurinn gengur um þessar mundir hratt norðaustur eftir og það er mikil hreyfing á honum. Við erum komin með um 500 tonn í þremur holum. Fyrsta holið var tekið úti í kanti austur af Norðfirði. Síðan fengum við gott makrílhol á Gerpistotunni. Í gær fengum við svo 230 tonna hol í Reyðarfjarðardýpinu en það var alltof mikil síld í því. Síðan höfum við verið að leita. Fiskurinn sem fæst, bæði makríllinn og síldin, er afar fallegur og sjórinn er sléttur og sólin skín. Þetta er lúxusveður. Við reiknum með að koma til löndunar í Neskaupstað í nótt og fara undir strax og löndun úr Berki er lokið,“ sagði Runólfur í gær.
Ljósmynd Húnbogi Sólon.