Kryddlegin lúða

Deila:

Lúða er ljúfmeti enda heilagfiski. Beinar veiðar á lúðu eru bannaðar en til allrar lukku fyrir okkur, sem sækjumst eftir þessum frábæra matfiski, berst alltaf eitthvað af lúðu að landi sem meðafli og fer þá á fiskmarkaði og endar í fiskbúðum, eða kemur  í land sem svokallaður pokafiskur. Hvort sem er, er bara að slá í veislu fái maður lúðu. Hana má elda á ótal vegu eins og annan fisk, en við ákváðum að þessu sinni að hafa hana í kryddlegi og baka í ofni.
Þetta reyndist einstaklega ljúffengur réttur sem við getum mælt með við hvern sem er. Kryddlegin lúða fyrir kryddlegin hjörtu!

Innihald:

800 gr. lúðuflök eða lúðusneiðar
Kryddlögur:

½ sítróna – safi og börkur
½ appelsína – safi og börkur
½  dl. ólífuolía
½  dl. basilíkuolía
½ dl chili saxaður smátt
4 hvítlauksrif – pressuð
3 msk. ferskt tímian eða 2 tsk. þurrkað
1 tsk. kúmenfræ
sítrónupipar
sjávarsalt

Aðferð:

Blandið öllu saman og leggið fiskinn í kryddlöginn í skál og látið liggja í 1 til 2 klukkutíma. Setjið lúðuna síðan í eldfast mót með smávegis af kryddleginum og bakið í ofni við 180°C í 15 mínútur eða lengur eftir þykkt flakanna.
Berið fram með góðum íslenskum kartöflum, salati að eigin vali góðri hvítlaukssósu. Skreytið með laufum af basilíku.
 

Deila: