Miklar skemmdir á Agli ÍS

Deila:

Svo virðist sem sprenging hafi orðið í bátnum Agli ÍS í nótt, þar sem hann lá við bryggju á Þingeyri. Eldur kviknaði í bátnum úti fyrir mynni Dýrafjarðar í gærkvöld og fóru slökkviliðsmenn út á móti Agli og slökktu eldinn. Bátnum var siglt í höfn og skipverjar fóru frá borði. Í nótt blossaði aftur upp eldur í bátnum. Þá urðu miklar skemmdir, ólíkt því sem orðið hafði í gærkvöld samkvæmt frétt á ruv,is.

Vigdís Diljá Óskarsdóttir, fréttamaður RÚV á Vestfjörðum, er á Þingeyri og fylgist með slökkvistarfi. Hún sagði í útvarpsfréttum klukkan níu að slökkvistarfi væri um það bil að ljúka. „Það er ennþá smáreykur og virðist vera hiti í bátnum. Þeir reyna hvað sem þeir geta til að komast fyrir það. Þeir héldu að þeir væru komnir fyrir það áðan en fóru svo með hitamyndavél yfir og ákváðu þá að hefja slökkvistarf að nýju. Þeir eru bæði með hefðbundnari slökkvitæki eins og við höfum heima, með dufti, og alls konar dælur til að dæla vatni ofan í vélarrúmi.“

Margir hafa komið að slökkvistarfi, auk slökkviliðsmanna eru það skipverjar á Agli og öðrum bátum.

Um miðnætti leit út fyrir að vel hefði tekist upp við að slökkva eldinn og að skemmdir væru litlar. Eldurinn tók sig upp aftur og þá varð sprenging í bátnum. Áldekkið er brunnið í gegn og í raun gat í gegnum bátinn.

„Skipstjórinn sýnir mikið æðruleysi. Ég spurði hann hvort að hann héldi að það væri hægt að gera við svonalagað. Hann bjóst nú ekki við því en sagði það ekki skipta neinu máli, þetta væri dauður hlutur. Hann er líka eigandi bátsins og sagði að það skipti mestu máli að það hefði ekki orðið mannskaði,“ sagði Vigdís Diljá í fréttum RÚV klukkan níu.

Mynd og frétt af RUV, ljósmynd Einar Valgeirsson

Deila: