Fiska vel í Bacalao 740 troll
Norski togarinn Atlantic Viking, sem gerður er út frá Álasundi hefur verið að gera það gott með Bacalao trollum frá færeysku netagerðinni Vonin. Þeir hafa mikið verið með hefðbundin 630 troll, en eru nú komnir með tvö troll af gerðinni 740 að auki.
Aðdragandinn að nýja trollinu hófst á síðasta ári þegar módel af því var prufað í tilraunatankinum í Hirtshals fyrir norska togarann Granit. Það var Bacalao 740, sem er ný útfærsla á 630 trollinu, sem margir togarar við Norður-Atlantshafið hafa verið að nota undanfarin ár.
Óli Horn hjá Voninni segir að skipstjórarnir á Granit hafi viljað stærra troll, svo þeir hafi sett upp Bacalao 740 með 36 metra fiskilínu og margir fleiri skipstjórar hafi sýnt þessu nýja trolli áhuga. Þeirra á meðal hafi verið skipstjórinn á Atlantic Viking, Karl Otto Riisbak, og tveir félagar hans. Þeir hafi pantað nýja trollið í janúar og fengið það nokkrum vikum seinna til að hefja ufsaveiðar í Norðursjó. Aukin hækkun höfuðlínunnar borið saman við 630 trollið hafi munað miklu og því hafi annað troll verið pantað.
Atlantic Viking fór síðan úr Norðursjónum og kom við í Færeyjum til að taka seinna 740 trollið og fór síðan á grálúðu- og karfaveiðar við Grænland. Þeir toguðu í aðra áttina með 630 trollinu og 740 trollinu í hina og fengu mun meira í stærra trollið. Þeir skiptu svo yfir í karfa og notuðu þá bara annað 740 trollið á hörðum botni og kláruðu karfakvótann sinn með því. Þeir tóku svo karfakvóta annars togara og því má segja að trollið hafi gefið vel án teljandi skemmda fyrir utan venjulegt viðhald.
Á ufsaveiðunum í Norðursjónum kom í ljós þegar margir togarar voru á slóðinni að fiskurinn lyfti sér hærra frá botninum. Þá kom hærri höfuðlína sér vel, því Atlantic Viking var að fá afla, þegar aðrir togarar fengu ekki og urðu að leita á aðrar slóðir.