Hlutfallslega meira sjófryst í maí

Deila:

Sjófrysting jók hlutdeild sína í aflaverðmæti í maímánuði síðastliðnum. Aflaverðmæti í mánuðinum dróst saman um 11,3% á heildina litið miðað við sama mánuði í fyrra, fyrst og fremst vegna lægra fiskverðs. Þrátt fyrir það varð aflaverðmæti í sjófrystingu 2,7 milljarðar í maí, sem er aukning um 8,9% miðað við sama mánuði í fyrra.

Verðmæti landaðs afla í beinum viðskiptum til vinnslu innanlands varð tæpir 6 milljarðar króna, sem er samdráttur um 10,3%. Verðmæti afla til sölu á fiskmörkuðum varð 1,5 milljarðar króna, sem er samdráttur um 25,5%. Það má því gera ráð fyrir að útgerðir hafi dregið úr löndunum á fiskmörkuðum og hlutfallslega meira af fiskinum farið í beinum viðskiptum til vinnslunnar. Fiskur sem seldur er á mörkuðum fer reyndar sömuleiðis til vinnslu innan lands. Sala á óunnum fiski í gámum skilaði 363 milljónum króna, sem er samdráttur um 27,9%.  Þar ræður mestu mun hærra gengi krónunnar í maí á þessu ári en í sama mánuði í fyrra.

Deila: