Ágúst hagstæður Norðmönnum

Deila:

Ágúst var hagstæður útflutningi Norðmanna á sjávarafurðum. Útflutningurinn þá nam 165.000 tonnum að verðmæti 102 milljarðar íslenskra króna. Magnið er 2% meira en í ágúst í fyrra og verðmætin hafa vaxið um 7%. Það sem af er ári nemur útflutningur sjávarafurða frá Noregi 1,6 milljónum tonna að verðmæti 827 milljörðum íslenskra króna. Það er aukning um 6% í magni og 8% í verðmætum.

Það er laxinn sem dregur vagninn hjá Norðmönnum. Útflutningur á honum jókst um 7% í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra og það sem af er árinu er hann orðinn meiri en á sama tíma í fyrra. Í ágúst fóru utan 90.700 tonn af laxi og það sem af er árinu er magnið komið upp í 614.400 tonn. Aukningin til loka ágúst er 1% í magni en verðmætið hefur hækkað um 11%.

Aukning hefur orðið á útflutningi á ferskum og frystum þorski um 21% í ágúst. Hlutfallslega mest er aukningin í saltfiski, 16% og 15% í frystum þorski. Það sem af er ári hafa Norðmenn flutt utan 58.200 tonn af ferskum þorski, sem er aukning um 9%. Af frystum þorski hafa 54.200 tonn farið utan, sem er 4% aukning.

Á þessu ári hafa Norðmenn selt 55.000 tonn af þurrkuðum saltfiski, sem er aukning um 19%. Af blautverkuðum saltfiski hafa farið utan 22.300 tonn, sem er 5% samdráttur. Þurrkaði fiskurinn fer mest til Portúgal og Brasilíu, en sá blautverkaði til Portúgal og Ítalíu. Sala á skreið hefur dregist saman.

Útflutningur á síld frá Noregi hefur aukist töluvert á árinu. Nú hafa farið utan 166.900 tonn, sem er aukning um 23%, en engu að síður hefur verðmæti útflutningsins lækkað um 1%. Útflutningur á makríl nemur nú 108.000 tonnum, sem er 3% minna en á sama tíma í fyrra, en verðmætið hefur farið upp um 7%.

 

 

Deila: