Makríllinn á austurleið

Deila:

Börkur NK var á landleið úr Smugunni með 1.160 tonn af makríl í gær. Hann mun koma til Neskaupstaðar nú fyrir hádegið en þá lýkur löndun úr Beiti NK. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Berki segir að vel hafi aflast í veiðiferðinni.

„Það var jafn og góður afli en minnst fékkst þó yfir lágnættið. Makríllinn dreifði sér talsvert í myrkrinu. Við fengum þennan afla í fimm holum og magnið í hverju holi var á bilinu 170-330 tonn. Þetta er stór og fallegur fiskur og í honum er afar lítil áta. Hann ætti því að henta mjög vel til vinnslu. Makríllinn gengur býsna hratt í austur. Við vorum á miðunum í einn og hálfan sólarhring og hann fór í 50-60 mílur í austurátt á þeim tíma. Þegar við hættum veiðum vorum við 50-60 mílur frá norsku lögsögunni,“ sagði Hálfdan í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Um það leyti sem Börkur lagði af stað í land hóf Bjarni Ólafsson AK veiðar í Smugunni og er ráðgert að hann komi með afla til Neskaupstaðar þegar löndun lýkur úr Berki.

 

Deila: