Færeyingar fá meira fyrir minna af fiski

Deila:

Útflutningur á fiskafurðum frá Færeyjum á fyrstu sjö mánuðum þessa árs jókst um 15% að verðmæti, en magnið dróst saman um 15%. Vöxturinn í verðmæti liggur í meiri verðmætum fyrir eldislax og uppsjávarfisk.

97%  af öllum útflutningi frá Færeyjum á þessu tímabil var sjávarafurðir. Þær skiluðu nú alls 73,6 milljörðum íslenskra króna sem er 10,6 milljörðum meira en á sama tíma í fyrra. Aukningin er eins og áður sagði 15%.

Eldislaxinn stendur undir tæplega helmingi útflutningsverðmætisins eða 40,2 milljörðum. Aukningin er 6,8 milljarðar króna, eða 20% miðað við sama tíma í fyrra. Uppsjávarfiskurinn, makríll, síld og kolmunni, er í öðru sæti með 13,2 milljarða króna, sem er aukning um 23% og loks kemur botnfiskurinn, þorskur, ufsi og ýsa að mestu leyti með 12,5 milljarða, sem er 7% vöxtur.

Þegar litið er á magnið er mest af uppsjávarfiski, 100.448 tonn, sem samdráttur um 13.758 tonn eða 12%. Næst mest fór utan af laxinum, samtals 38.267 tonn, sem er aukning um 3.520 tonn eða 10%. Af botnfiski fóru utan 25.219, sem er vöxtur 1.377 tonn eða 6%. Loks voru flutt utan 27.991 tonn af „öðrum fiski“, sem er samdráttur um 47.274 tonn eða 63%.

Heildarútflutningur nú var 248.176 tonn sem er samdráttur um 43.071 tonn eða 15%

Breytingar á verðmæti og magni benda til þess að Færeyingar séu í ár að fá hærra verð fyrir megnið af fiskaurðum sínum, en samsetning og vinnsluvirði afurða getur einnig haft áhrif til breytinga á verði.

 

Deila: