Ufsinn í loðnuleit

Deila:

,,Það er búin að vera ágæt veiði í allt haust og tíðarfarið hefur verið með ágætum. Það voru reyndar tvær krappar lægðir, sem gengu yfir Vestfjarðamið í síðustu veiðiferð, en við sluppum  við það versta. Fyrst vorum við á suðvestursvæðinu og síðan vorum við að enda túrinn og vorum komnir á Straumnesbanka þar sem veðrið var skaplegra.“

Þetta segir Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri á Helgu Maríu AK í samtali á heimasíðu HB Granda. Togarinn kom til hafnar í Reykjavík sl. sunnudag eftir velheppnaða veiðiferð. Aflinn var alls tæplega 140 tonn.

,,Við byrjuðum á Fjöllunum suðvestur af Reykjanesi. Þar var nóg af gullkarfa en lítið sem ekkert af ufsa. Við færðum okkur því norður í Djúpkrók og síðan á Þverálshornið og Halamið, þar sem við vorum lengst af. Aflinn var ágætur, mest þorskur en einnig dálítið af ufsa. Það var búin að vera ágæt ufsaveiði fyrir austan Djúpkrókinn dagana á undan en ufsinn var að mestu horfinn af svæðinu þegar við komum þangað. Hann var þarna í loðnu en síðan hefur hann elt loðnuna eitthvað út fyrir hefðbundin veiðisvæði,“ segir Heimir en hann segir að magasýni úr ufsanum, sem veiddist fyrir vestan, sýna að loðna sé nú uppistaða fæðunnar.

,,Við sluppum svo við mestu bræluna sem gerði fyrir vestan um helgina. Þá vorum við komnir suður fyrir Straumnes. Þar enduðum við túrinn á þorski og fengum nokkur kör af skarkola að auki,“ sagði Heimir Guðbjörnsson.
 

 

Deila: