Grun eykur fisksölu innanlands
Guðmundur Runólfsson hf í Grundarfirði er rótgróið fiskvinnslufyrirtæki sem hefur ætið selt allan sinn afla á markaði erlendis. Fyrir um það bil tveimur árum fór fyrirtækið að fikra sig áfram á innanlandsmarkaði. Rósa Guðmundsdóttir framleiðslustjóri segir að lítill hluti framleiðslunnar fari á innanlandsmarkað en það hlutfall sé þó að aukast. Frá þessu er sagt á vefsíðunni http://skessuhorn.is
„Það er mikill vilji innan fyrirtækisins til að selja innanlands og stækka þann hluta,“ segir Rósa í stuttu spjalli við fréttaritara. „Þetta er ekki stór hluti af heildarsölunni en er þó að aukast,“ bætir hún við. Fyrirtækið selur mest hérna á Vesturlandi á veitingahús, í veisluþjónustur og þess háttar. „Já, við erum með þónokkur fyrirtæki í viðskiptum en þessi markaður er samt mjög breytilegur,“ segir Rósa. „Við sendum þetta frá okkur í frauðplastkössum en þegar nýja fiskvinnslan kemur í notkun þá er möguleiki að við framleiðum fiskinn og pökkum í söluvænar umbúðir,“ bætir Rósa við, en Guðmundur Runólfsson er með nýtt vinnsluhús á teikniborðinu. „Við reynum alltaf að uppfylla þarfir kaupandans á innanlandsmarkaði og hefur það gengið mjög vel hingað til,“ bætir hún við að lokum.