„Landnám“ grjótkrabbans vex hratt
Svo virðist sem útbreiðsla grjótkrabba sé með hraðara móti. Frá því hann fannst fyrst í Hvalfirði fyrir áratug hefur hann náð útbreiðslu til Eyjafjarðar. Hann á engan náttúrulegan óvin nema okkur mannfólkið. Góður til átu, að mati sérfræðings Náttúrustofu SV-lands. Frá þessu er sagt í Fréttablaðinu í dag.
Grjótkrabbi, sem nam land fyrst í Hvalfirði árið 2006, hefur á undanförnum áratug náð útbreiðslu alla leið norður í Eyjafjörð. Hefur hann veiðst í sumar í Eyjafirði auk þess sem hann hefur sést undanfarin ár þegar kafað hefur verið á svæðinu. Grjótkrabbinn getur verið öðrum tegundum mikill skaðvaldur á hafsbotni við Íslandsstrendur.
Það var árið 2006 sem grjótkrabbi fannst fyrst hér við land en upprunaleg heimkynni hans eru við austurströnd Bandaríkjanna. Tegundin þar á sér náttúrulega óvini og er undirstöðufæða ameríkuhumarsins. Hins vegar á hann fáa sem enga náttúrulega óvini hér við land og fjölgar sér því hratt.
Sindri Gíslason, forstöðumaður Náttúrustofu Suðvesturlands, sér um rannsóknir á útbreiðslu grjótkrabbans. Hann segir þetta framandi lífveru í vistkerfi okkar og því sé fylgst náið með framvindunni. „Til að mynda hefur hann fundist í miklum mæli á Breiðafirði undanfarið. Á sama tíma virðist hörpudiskurinn, sem er nytjastofn hér við land, eiga erfið ár. Því er áhugavert að sjá hvernig útbreiðsla og fjölgun grjótkrabbans mun hafa áhrif á erfiðan tíma hjá hörpudisknum.“
Tegundir sem nema land annars staðar eru fluttar meðvitað eða ómeðvitað af mannfólki, oftast nær með sjó í kjölfestuvatni skipa eða að dýrategundir festa sig við skip. „Talið er að á bilinu þrjú til tíu þúsund tegundir séu á degi hverjum fluttar milli svæða með þessum hætti þannig að hér er um að ræða mjög stórar tölur í þessu samhengi,“ segir Sindri.
Á aðeins áratug hefur krabbinn farið frá Hvalfirði og breiðst út í Breiðafirði og hefur veiðst á Vestfjörðum, í Húnaflóa, Skagafirði og í Eyjafirði. Ef áfram heldur sem horfir mun grjótkrabbinn nema allt norðausturhornið og austanvert landið á næstu árum. „Grjótkrabbinn er alæta og ræðst á allt sem að kjafti kemur. Á meðan hann er mjög lítill er hann étinn af botnfiski og öðrum dýrum en þegar hann er kominn yfir vissa stærð hefur ekkert dýr hér við strendur roð við honum,“ bætir Sindri við að lokum.