Minna verðmæti þrátt fyrir meiri afla

Deila:

Aflaverðmæti íslenskra skipa í júní var ríflega 7,1 milljarður króna sem er 21,9% minna en í júní 2016. Fiskafli íslenskra skipa í tonnum talið var þó 26% meiri en í júní 2016, eða tæp 53 þúsund tonn samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands.

Verðmæti botnfiskaflans nam tæpum 5,4 milljörðum sem er 26,4% samdráttur miðað við júní 2016. Verðmæti þorskaflans var um 3,3 milljarðar sem er 19,3% samdráttur þrátt fyrir 2,8% aukningu í magni. Verðmæti ýsuaflans var 23,5% minni en í júní 2016 þótt aflamagn hafi verið svipað. Verðmæti flatfiskafla nam 1.165 milljónum og dróst saman um 5,1% miðað við júní árið áður. Aflaverðmæti uppsjávartegunda nam tæpum 300 milljónum í júní og verðmæti skel- og krabbadýraafla nam tæpum 276 milljónum.

Á 12 mánaða tímabili frá júlí 2016 til júní 2017 nam aflaverðmæti íslenskra skipa 112,4 milljörðum króna sem er 19,8% samdráttur miðað við sama tímabil ári fyrr.

Þessi mikli samdráttur á verðmæti fiskaflans endurspeglar verulega lækkun á fiskverði þar sem aflinn í júní var ríflega fjórðungi meiri nú en í fyrra, en þar kemur einnig inn í að aflaaukningin í mánuðinum er nær eingöngu í kolmunna, sem er fiskur á lágu verði til bræðslu.

Sé litið nánar á þróunina í einstökum tegundum kemur í ljós að verðmæti þorskaflans í júní dregst saman um um ríflega 19% þrátt fyrir að þorskaflinn hafi í sama mánuði aukist um 3% miðað við sama mánuð árið áður. Verðmæti ýsuaflans hefur fallið um 23,5% þrátt fyrir að aflinn hafi staðið i stað. Verðmæti karfaaflans hefur lækkað um 34,3% en aflinn dróst aðeins saman um 9%

Loks má líta á uppsjávarfiskinn þó myndin sé svolítið ýkt. Aflinn fer úr 2.385 tonnum í 16.146, sem er 577% aukning en verðmætið rétt ríflega tvöfaldast.

 

Deila: