Síðasti loftskeytamaðurinn kvaddur

Deila:

Bergþór Atlason, varðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð, vann sína síðustu vakt í síðustu viku. Í tilefni starfslokanna var honum haldið kveðjuhóf í stjórnstöðinni.

Bergþór starfaði um áratugaskeið sem loftskeytamaðurinn á strandstöðvum Pósts og síma, þar á meðal á Siglufirði og í Vestmannaeyjum. Hann kom til Landhelgisgæslunnar árið 2005 þegar strandstöðvarnar, Tilkynningaskyldan og stjórnstöð LHG voru sameinaðar undir einu þaki. Hann er því með upp undir hálfrar aldar samfelldan starfsferil sem loftskeytamaður og varðstjóri í þessu öryggisumhverfi fyrir sjófarendur.

Bergþór er menntaður loftskeytamaður og er hann að öllum líkindum einn sá síðasti með þá menntun sem starfað hefur óslitið í þeim geira. Formlegt loftskeytanám var í boði á Íslandi frá 1918-1980 og því eru hartnær fjórir áratugir síðan loftskeytamaður var síðast útskrifaður hérlendis.

Samstarfsfélagar Bergþórs komu í stjórnstöðina í dag og drukku með honum kaffi og þáðu veitingar. Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, og Björgólfur Ingason aðalvarðstjóri í stjórnstöð, ávörpuðu mannskapinn og Svanhildur Sverrisdóttir mannauðsstjóri færði Bergþóri blóm í tilefni dagsins.

Bergþór ásamt þeim Snorre Greil stýrimanni og Georg Kr. Lárussyni, forstjóra LHG.

Bergþór ásamt þeim Snorre Greil stýrimanni og Georg Kr. Lárussyni, forstjóra LHG.

 

 

 

Deila: