Klettur vill endurskoða veiðarfæratakmarkanir
Aðalfundur Kletts var haldinn á Akureyri 30. september sl. Fyrir fundinum lágu fjölmargar tillögur frá stjórn félagsins sem voru ræddar í þaula og afgreiddar sem ályktanir til aðalfundar LS.
Tillaga um rýmri heimildir á veiðarfæratakmörkunum krókaaflamarksbáta var mikið rædd. Kostum og göllum var velt upp. Niðurstaða fundarins varð sú að kominn sé tími til að skoða ákvæði sem heimilar aðeins notkun línu og handfæra við veiðar, að undanskildum hrognkelsaveiðum.
Veiðarfæratakmarkanir í krókaaflamarki
Aðalfundur Kletts telur tímabært að rýmka ákvæði um veiðarfæratakmarkanir sem bátar með krókaaflamarksleyfi sæta.
Greinargerð.
Skoða ætti að heimila að einhverju leyti staðbundin veiðarfæri innan kerfisins (net), hvort sem það er gert með sérveiðileyfum eða almennri breytingu á veiðikerfi krókaaflamarks-báta. Slík ráðstöfun yrði til að auka sveigjanleika og bæta afkomu smábátaútgerðar til annarra veiða t.d. með síldar-, skötusels-, grálúðu- og kolanetum.
Auk þess mundi það leiða til bættrar afkomu fyrir útgerð krókabáta að heimila netaveiðar á ufsa og þorski. Einnig myndu möguleikar smábátaútgerðarinnar til að nýta aflaheimildir í ufsa batna við slíka ráðstöfun.
Stjórn Kletts var endurkjörin og hana skipa:
Þórður Birgisson formaður
Andri Viðar Víglundsson
Einar Þorsteinn Pálsson
Jón Kristjánsson
Víðir Örn Jónsson