Síldveiðar hafnar af krafti
Veiðar á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum eru hafnar af krafti og hefur veiðin farið vel af stað að sögn Guðlaugs Jónssonar, skipstjóra á Venusi NS. Lokið var við að vinna síðasta makrílfarm Víkings AK hjá uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði um síðustu helgi en nú er það vinnsla á síld sem allt snýst um í bæjarfélaginu.
,,Við erum nú í þriðja hreina síldartúrnum en í þeim tveimur fyrri vorum við með 900 og 1.000 tonna afla. Þetta lítur vel út að öðru leyti en því að það er búin að vera ótíð á miðunum. Gærdagurinn nýttist skipunum ekki og það lægði ekki fyrr en í morgun. Svo á aftur að hvessa með kvöldinu þannig að tíðarfarið er ekki beinlínis hagstætt,“ sagði Guðlaugur. En er rætt var við hann síðdegis í gær á heimasíðu HB Granda var Venus að veiðum utarlega í Héraðsflóadjúpi. Skipum hefur fjölgað á miðunum síðustu dagana enda eru mörg skipanna búin með makrílkvótann.
Að sögn Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra HB Granda á Vopnafirði, er síldin fínasta hráefni.
,,Þetta er mjög góð síld og meðalvigtin hefur verið um 350-360 grömm. Það var ekkert mál að skipta yfir í síldarvinnsluna. Við erum með flokkara fyrir síld og makríl uppsetta og vinnslulínan er sú sama,“ segir Magnús Róbertsson en hann vonast til að vinnsla á norsk-íslenskri síld dugi húsinu næstu þrjár vikurnar.