Heilfrysting skilar Norðmönnum miklu
Það sem af er þessu ári hefur útflutningur á svokölluðum hvítfiski, ufsa, ýsu og þorski, frá Noregi aukist um 9%, bæði í magni og verðmæti. Á hinn bóginn hefur útflutningur á uppsjávarfiski dregist saman.
Vöxturinn er fyrst og fremst í auknu verðmæti og magni af heilfrystum fiski og þurrkuðum saltfiski. Alls hafa 349.000 tonn af þorski, ufsa, ýsu og öðrum hvítfiski farið utan fyrstu níu mánuði ársins að verðmæti 151,5 milljarðar íslenskra króna. Reyndar var samdráttur í verðmæti upp á einn milljarð íslenskra króna í september miðað við sama mánuð í fyrra samkvæmt frétt frá Norges Sjømatråd, útflutningsráði Noregs fyrir sjávarafurðir.
Skýrslu útflutningsráðsins um hvítfisk má lesa hér.
Síld og makríl
Útflutningur á síld og makríl hefur dregist saman um 3% miðað við sama tíma í fyrra. Alls hafa farið utan 180.000 tonn af síld og 135.000 tonn af makríl í ár að verðmæti 48 milljarðar íslenskra króna.
Í september voru afurðir úr uppsjávarfiski að verðmæti 6,6 milljarðar króna fluttar út, sem er 44% samdráttur miðað við september í fyrra. Síldarflök eru mest áberandi í útflutningi síldarafurða og skila helmingi verðmætanna.
Alla skýrslu útflutningsráðsins má lesa hér