Nóg af fiski en sumar tegundir vandveiddar

Deila:

,,Veiðin hefur gengið alveg þokkalega. Það er nóg af fiski á slóðinni en vandinn er sá að þær tegundir, sem við erum á höttunum eftir, eru vandveiddar. Efst á óskalistanum hjá okkur eru grálúða og djúpkarfi og hvað þær varðar mætti veiðin vera betri,“ segir Kristinn Gestsson, skipstjóri á frystitogaranum Þerney RE í samtali á heimasíðu HB Granda.

Er rætt var við Kristin var veiðiferðin hálfnuð en hann segist hafa byrjað að leita að djúpkarfa í öllum djúpköntum með suðurströndinni og síðan úti af Austfjörðum þar sem grálúðu hefur einnig verið að finna. Lítið hafi verið um djúpkarfa á þessum slóðum.

,,Við erum núna á Hampiðjutorginu út af Vestfjörðum og erum að reyna við grálúðu og djúpkarfa. Grálúðan er vandveidd. Það er nóg af þorski og gullkarfa hér á Vestfjarðamiðum en ufsinn hefur lítið sést. Ýsuna veiðum við á grunninu frá Reykjafjarðarál og vestur eftir en hún er mjög viðkvæm fyrir of mikilli sókn og því þarf að hvíla bleyðurnar vel á milli,“ segir Kristinn en að hans sögn er tegundum eins og gulllaxi alltaf gefinn gaumur.

,,Ég leitaði að gulllaxi í köntunum á leiðinni austur en það virðist ekki vera mikið af honum um þessar mundir,“ segir Kristinn Gestsson.
 

 

Deila: