Glæsilegur tæknidagur

Deila:

Tæknidagur fjölskyldunnar fór fram í Verkmenntaskóla Austurlands sl. laugardag en það er Verkmenntaskólinn ásamt Austurbrú sem standa fyrir honum. Þetta er í fimmta sinn sem tæknidagurinn er haldinn en á honum efna fyrirtæki og stofnanir til kynningar á starfsemi sinni og er þá ekki síst lögð áhersla á að kynna ýmsar nýjungar samkvæmt frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar..

Eins má kynnast hinu fjölbreytta námsframboði Verkmenntaskólans á þessum degi.  Sannast sagna er dagurinn sífellt glæsilegri ár frá ári og ljóst er að Austfirðingar kunna vel að meta það sem boðið er upp á þennan dag. Sérstök áhersla er lögð á að dagurinn höfði til allra aldurshópa og þá ekki síst til barna.

Að þessu sinni skráðu tæplega 1.200 manns nöfn sín í gestabækur tæknidagsins en gera má ráð fyrir að alls hafi 1.200 – 1.500 manns notið þeirrar dagskrár sem boðið var upp á. Fólk kom á tæknidaginn víða að af Austurlandi og oft mátti sjá að heilu fjölskyldurnar höfðu lagt land undir fót til að njóta dagsins.

Eins og venjulega tók Síldarvinnslan virkan þátt í deginum. Starfsemi fyrirtækisins var kynnt með ýmsu móti og eins var gestum boðið að njóta góðra veitinga sem unnar voru úr hráefni úr hafinu. Þarna mátti gæða sér á unnum loðnuhrognum (masago), reyktri grálúðu, reyktum og niðursoðnum makríl, sölum,  harðfiski og gómsætri síld. Mikill fjöldi gesta heimsótti kynningarsvæði Síldarvinnslunnar og ekki var annað að sjá en sælgætið úr hafinu slægi í gegn.

Ljósmynd Smári Geirsson

 

Deila: