Reyna að semja um uppsjávarfiskinn

Deila:

Samráðfundir strandríkjanna sem stunda veiðar á makríl, kolmunna og norsk-íslenskri síld á næsta ári hefjast í dag.  Fyrsta tegundin sem tekin verður fyrir er makrílinn og eru Norðmenn gestgjafar í þeim viðræðum, sem fara fram í London.

Á dagskránni í dag eru framlag fiskifræðinga og tæknilegar útfærslur. Þá þurfa þjóðirnar að koma sér saman um leyfilegan heildarafla, en Alþjóða hafrannsóknaráðið hefur lagt til verulegan niðurskurð á heildaraflanum frá því sem verður veitt á þessu ári. Samkvæmt frétt frá færeyska sjávarútvegsráðuneytinu verður gerð tilraun til að útvíkka makrílsamkomulag Færeyja, ESB og Noregs frá árinu 2014 með því að fá fleiri þjóðir inn. Þar er líklega verið að benda á Ísland, sem haldið hefur verið utan samkomulagsins.

Í næstu viku eru kolmunninn og síldin á dagskránni í London og þá eru það Norðmenn annars vegar og hins vegar Rússar sem fara með formennsku. Eins og í makrílnum verður fyrst farið yfir vöxt og viðgang stofnanna og tæknileg atriði við veiðarnar áður en reynt verður að ná samkomulagi um hæfilegan heildarafla á þessum tegundum á næsta ári en tillögur Alþjóða hafrannsóknaráðsins liggja nú fyrir. Þá þarf að semja um skiptingu veiðiheimildanna milli ríkjanna. Sem við söguna koma. Það eru Ísland, Færeyjar, Grænland, Evrópusambandið, Noregur og Rússland.

Undanfarin ár hefur hvorki tekist að semja um heildarafla í þessum tegundum né skiptingu hans milli þjóðanna.

Deila: