Fiskeldi nær tvöfaldaðist á einum áratug
Fiskeldisframleiðslan í heiminum fór nálægt því að tvöfaldast á einum áratug, frá árinu 2007 til 2017, samkvæmt tölum frá FAO og samtakanna Global Aquaculture Alliance ( GAA). Þetta kom fram í ræðu sem Ragnar Tveteras viðskiptahagfræðingur við Háskólann í Stavanger í Noregi flutti á fundi síðarnefndu samtakanna nú nýverið. Frá þessu er greint á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva.
Framleiðsla einstakra tegunda þróaðist með nokkuð breytilegum hætti. Markmiðið hefur verið að þessi framleiðsla gæti aukist að jafnaði um helming á hverjum áratug. Nú er ljóst að síðustu tíu árin hefur framleiðsluaukningin verið nálægt þessu.
Athuganir Global Aquaculture Alliance ná yfir stærstan hluta heimsframleiðslunnar á eldisfiski. Og þó að framleiðslutölur gefi vísbendingar um nokkuð mismunandi þróun þá er ljóst að framundan er enn frekari vöxtur. Framleiðsla á regnbogasilungi á heimsvísu hefur dregist saman en því er spáð að vöxtur verði í framleiðslu annarra sjó- og vatnagöngufiska. Þannig jókst framleiðsla á atlantshafslaxi um 62 prósent á síðustu tíu ár.
Ragnar Tveteras sagði í ræðu sinni að framundan gæti orðið frekari vöxtur í mörgum greinum fiskeldis, með áframhaldandi nýsköpun og dugnaði.