Markmiðið að minnka kolefnissporið um 40%

Deila:

Eimskip kynnti aðgerðir félagsins og árangur í umhverfismálum á Umhverfisdegi atvinnulífsins 2017 sem haldinn var í síðustu viku. Árið 1991 var félagið eitt af fyrstu fyrirtækjum landsins til að setja fram stefnu í umhverfismálum. Nú, 26 árum síðar, hefur félagið unnið markvisst að því að standa við skuldbindingar undirritunar yfirlýsingar um loftslagsmál sem fram fór í Höfða í nóvember 2015. Áhersla hefur verið lögð á rafvæðingu nauðsynlegrar söfnunar og úrvinnslu gagna vegna umhverfismála í samstarfi við Klappir Grænar Lausnir hf.

Frá árinu 2005 hefur Eimskip verið í samstarfi við Marorku til að lágmarka orkunotkun og rekstrarkostnað skipa sem skilar sér í minni kolefnislosun þeirra. Á árinu 2016 dróst kolefnisspor félagsins saman um 8,8% samanborið við fyrra ár, reiknað á flutta einingu, en markmiðið er að minnka kolefnissporið um 40% til ársins 2030. Stærstur hluti olíunotkunar Eimskips er vegna reksturs skipaflota félagsins, en skipaflutningar eru umhverfisvænsti flutningsmáti sem eyríki geta nýtt sér við inn- og útflutning á vörum.

Eimskip hefur tekið í notkun kolefnisreiknivél á vef sínum. Þar geta viðskiptavinir og aðrir reiknað út hversu mikið magn í formi kolefnisígilda tiltekinn flutningur myndar. Kolefnisreiknivélina og stefnu um samfélagsábyrgð félagsins er að finna hér.

„Það er ánægjulegt að sjá hversu miklum árangri starfsmenn félagsins hafa náð á skömmum tíma. Það er okkur hvatning til að halda áfram á þessari braut og leita nýrra leiða og tækni til standa okkur vel í þeim þætti rekstrarins sem snýr að umhverfismálum, en vegna eðlis rekstrar Eimskips vegur sá málaflokkur þungt í samfélagsábyrgð félagsins,“ segir Gylfi Sigfússon forstjóri félagsins.

 

 

Deila: