Grímur kokkur hlýtur Fjöreggið

Deila:

Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands (MNÍ), í samstarfi við Samtök iðnaðarins (SI), veitti á Matvæladegi MNÍ Grími kokki í Vestmannaeyjum viðurkenninguna Fjöreggið fyrir lofsvert framtak á matvæla- og næringarsviði.
Fyrirtæki sem voru einnig tilnefnd voru Eldum rétt, Næring móður og barns (NMB), Friðheimar, Mjólkursamsalan.

Fyrirtækið Grímur kokkur var tilnefnt fyrir að hvetja til fiskneyslu með framleiðslu fjölbreyttra vara úr íslensku sjávarfangi.

Grímur kokkur Fjöreggið 2„Grímur kokkur er fjölskyldufyrirtæki sem framleiðir tilbúna sjávarrétti. Markmið Gríms kokks er að framleiða aðeins fyrsta flokks vöru úr fyrsta flokks hráefni, sem er holl, bragðgóð og fljótlegt að framreiða. Stefnan er að vera framsækið fyrirtæki á matvælamarkaði, láta hlutina gerast og ná árangri, til hagsbóta fyrir fyrirtækið, starfsfólkið og allra helst fyrir viðskiptavinina.
Fyrirtækið er staðsett í Vestmannaeyjum og sendir frá sér ferskar vörur tvisvar á dag út um allt land. Megináhersla er á tilbúna fiskrétti úr úrvals hráefni en einnig framleiðir fyrirtækið nokkrar tegundir af grænmetisréttum sem notið hafa mikilla vinsælda.
Grímur kokkur leggur einnig sitt af mörkum til vísindanna með því að taka þátt í rannsóknarverkefnum með Matís og Háskóla Íslands þar sem áhrif fiskneyslu á heilsu eru rannsökuð,“ segir á heimasíðu Gríms kokks.

 

Deila: