Aukið útflutningsverðmæti frá  Færeyjum

Deila:

Færeyingar fluttu utan fiskafurðir að verðmæti 87 milljarðar íslenskra króna á fyrstu átta mánuðum ársins. Það er aukning um 16%. Magnið þetta tímabil dróst þrátt fyrir það saman um 11% og varð alls 274.282 tonn. Eldislaxinn er langmikilvægasta afurðin í þessum útflutningi.

Þegar litið er á útflutningsverðmætið kemur í ljós að eldislaxinn skilar meiru en helmingi þess. Andvirði útflutningsins nú var 43,6 milljarðar íslenskra króna. Það er aukning um 7 milljarða eða 20% miðað við sama tíma í fyrra. Hærra verð og meira magn er skýringin. Uppsjávarfiskurinn kemur næstur með 14 milljarða , sem er aukning um 24%. Verðmæti útflutts þorsk, ýsu og ufsa var 13,8 milljarðar og hækkaði um 10%.

Uppsjávarfiskurinn vegur þyngst í útflutningum þegar litið er á magnið. Nú fóru utan 109.240 tonn, sem þó er samdráttur um 9%. Það, að verðmætið aukist þrátt fyrir samdrátt, bendir til bæði almennrar hækkunar á verði afurðanna og aukins hlutfalls verðmeiri afurða af heildinni. Laxinn kemur næstur með 41.588 tonn, sem er 10% aukning. Útflutningur á þorski, ýsu og ufsa var 28.389 tonn, sem er 10% vöxtur, sem er hið sama og aukningin í verðmætinu.

Af öðrum fisktegundum fóru utan 30.186 tonn, sem er samdráttur um hvorki meira né minna en 61%. Þar er líklegasta skýringin breyting á flokkun og sama á við um svokallaða „fiskaúrdráttir“ sem er fyrst og fremst mjöl og lýsi. Þar fer magnið úr 47.159 tonnum í 64.880 tonn, sem er aukning um 38%

 

Deila: