Gott fiskirí fyrir austan

Deila:

Bergey VE og Vestmanney VE veiða mest á Austfjarðamiðum á haustin og jafnvel framyfir áramót. Löngum hafa skipin lagt áherslu á ýsuveiðar eystra en upp á síðkastið hefur einnig skipt máli að veiða þorsk. Skipin hafa landað á Eskifirði, Norðfirði og Seyðisfirði þegar þau landa fyrir austan en nú er meginreglan sú að landað er í Vestmannaeyjum eftir þriðja hvern túr. Hluti af afla skipanna fer til vinnslu í fiskvinnslustöð Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði.

Bæði skipin hafa verið að afla vel á Austfjarðamiðum það sem af er hausti og hafði heimasíða Síldarvinnslunnar samband við Jón Valgeirsson skipstjóra á Bergey á föstudag. Þegar rætt var við Jón var Bergey að toga í Vonarbrekkunni austan við Hvalbakinn. „Það hefur verið fínasta fiskirí hérna fyrir austan að undanförnu. Við lönduðum á Seyðisfirði um 60 tonnum hinn 16. október og síðan aftur í gær 78 tonnum. Uppistaða aflans er ýsa og þorskur. Í fyrri túrnum vorum við mest í Litladýpi og á Breiðdalsgrunni en í seinni túrnum á Glettinganesgrunni. Ég geri síðan ráð fyrir að við löndum í Eyjum að loknum yfirstandandi túr,“ sagði Jón.

 

Deila: