Erlendir aðilar leita eftir fiski af smábátum

Deila:

„Erlendir aðilar leituðu nýlega til LS eftir aðstoð við að kaupa fisk beint af bátum sem skaffa afburða hráefni. LS tók vel í að vera milligönguaðili um að leiðbeina þessum aðilum og við höfum miklar væntingar um að þarna séu vannýtt tækifæri sem okkur tekst vonandi að nýta,“ sagði Axel Helgason í ræðu sinni á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda.

Í byrjun er um að ræða 1-2 tonn af þorskflökum á viku til dreifingar í Evrópu á verði, sem er hærra en verð á mörkuðunum hér heima.

„Þetta er vonandi byrjun á því að erlendir aðilar sjái tækifæri í að kaupa beint af bátum okkar gegnum markaðina og þeir semji við minni vinnslur um að verka fiskinn á þann hátt sem þeir óska til útflutnings með flugi eða skipi.

Það sem uppá vantar er að miðla til þessara aðila upplýsingum um uppboðið og hvaða leiðir séu færar til að tryggja að hráefnið standist þær kröfur sem þeir gera,“ sagði Axel.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS, kom einnig inn á þessi mál í skýrslu sinni til fundarins. „Fiskverðið er ekki eðlilegt, var margsinnis sagt á sl. sumri.  Orð að sönnu, þegar upp var staðið aðeins 204 kr meðalverð.  Ýmsar skýringar gefnar t.d. að vinnslan var að taka meira til sín vegna launahækkana sem orðið hefðu hjá fiskvinnslufólki.  Grundfirðingar brugðust við hinu lága verði og ákváðu að selja á fiskmarkaði í Bretlandi.  Tilraunin gekk vel.  LS íhugar nú hvort rétt sé að undirbúa sölu beint á erlenda markaði af bátum félagsmanna,“ sagði Örn.

 

Deila: