Laxar Fiskeldi eykur hlutafé

Deila:

Laxar Fiskeldi í Reyðarfirði hefur fjármagnað stækkun fyrirtækisins en það gerir ráð fyrir að fá leyfi til aukinnar framleiðslu í Reyðarfirði á næsta ári. Hlutafjáraukning upp á 1,2 milljarða verður notuð til að stækka seiðaeldið, kaupa nýjar kvíar og báta og hefja fyrstu slátrun á Djúpavogi. Frá þessu var greint á ruv.is

Laxar fiskeldi er með starfsemi á bæði Suður- og Austurlandi. Tvær seiðastöðvar rétt hjá Hveragerði, á Bakka og Fiskalóni og eina í við Laxabraut í Þorlákshöfn. Seiðin eru alin í sláturstærð í sjókvíum í Reyðarfirði þar sem fyrirtækið er með 6 þúsund tonna leyfi. Aukið hlutafé kemur allt frá núverandi hluthöfum en þar er Norska fiskeldisfyrirtækið Masøval stærst og á 53% hlut. Afgangurinn er í eigu íslenskra einstaklinga og fyrirtækja og norskra einstaklinga.

Helgi B. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis, segir að fyrirtækið þurfi í frekari framkvæmdir til að undirbúa stækkun. „Það er meðal annars með fjárfestingu í seiðaeldisstöðvum í Ölfusinu og síðan í frekari búnaði í Reyðarfirði. Það eru nýir fóðurprammar, kvíar og vinnubátar og ýmis búnaður sem fylgir þessu,“ segir Helgi.

Laxar hefur sótt um 10 þúsund tonna viðbótarleyfi í Reyðarfirði og gerir ráð fyrir að skila endurskoðaðri frummatsskýrslu á næstu dögum þar sem brugðist er við athugasemdum og tekið tillit til áhættumats Hafrannsóknastofnunar. Þá er einnig í vinnslu umsókn um 4000 tonna leyfi í Fáskrúðsfirði.

Enn óvissa um hvort og hvar stóra sláturhúsið mun rísa

Fyrirtækið hefur skrifað undir viljayfirlýsingu við Djúpavogshrepp um aðstöðu í Innri Gleðivík. Fyrsta laxinum úr Reyðarfirði verður slátrað á Djúpavogi næsta haust í samvinnu við Fiskeldi Austfjarða. Helgi segir að Laxar þurfi að fara í einhverjar framkvæmdir á Djúpavogi vegna þessa. Ótímabært sé ennþá að segja til um hvar á Austfjörðum stórt laxasláturhús til framtíðar muni rísa. Hagkvæmt væri að fiskeldisfyrirtæki á Austfjöðrum stæðu sameiginlega að því að byggja nýtt laxasláturhús en til að þess þurfi heildareldi á Austfjörðum að ná ákveðinni stærð. „Það þyrfti framleiðslu upp á 40-50 þúsund tonn til að það sé grundvöllur fyrir því að byggja nútíma sláturhús,“ segir Helgi.

 

Deila: