Milljarður í veiðigjöld í september

Deila:

„Alltof algengt er að í aðdraganda kosninga sé sjávarútvegurinn notaður af frambjóðendum sem endalaus uppspretta fjármagns til að fjármagna kosningaloforðin. Það virðist vera sama hvernig árar í greininni, alltaf á að vera hægt að teygja sig eftir meira fjármagni frá sjávarútvegsfyrirtækjum.“ Svo segir í færslu á heimasíðu Síldarvinnslunnar og þar segir ennfremur:

„Í aðdraganda þessara kosninga er við hæfi að vitna í orð Árna Vilhjálmssonar, fyrrv. prófessors við HÍ, á aðalfundi Granda árið 1995 þegar fyrstu alvöru umræður um veiðigjald voru að eiga sér stað:

„Margir ólíkir hættir við gjaldtöku hafa verið orðaðir. Einn háttur er árlegt gjald, sem nemur tiltekinni krónutölu á hvert tonn fisks, sem heimild fæst til að veiða. Á slíku kerfi er sá annmarki, mjög alvarlegur að mínu mati, að árlega gæti risið upp ágreiningur og kostnaðarsöm umræða um allt þjóðfélagið um það, hversu hátt gjaldið skyldi vera það sinnið. Kostað skyldi kapps um að kreista allan umframhagnaðinn út úr útgerðinni. Hætt er við, að slík gjaldtaka hefði lamandi áhrif á alla skapandi hugsun í greininni, á allt framtak og frumkvæði, enda yrði það ekki umbunað, þegar á heildina er litið.“

Nú á dögunum birti Stjórnstöð ferðamála margvíslegar upplýsingar um gang mála hjá ferðaþjónustunni. Hvergi er að finna svipaðar upplýsingar um þróun helstu hagtalna í sjávarútvegi og vegna þess hversu snögglega rekstrarumhverfi útflutningsgreina hér á landi hefur breyst er nauðsynlegt að halda til haga nokkrum atriðum um þróun mála í sjávarútveginum:

Veiðigjald í september síðastliðnum nam 1.000.000.000 kr

Veiðigjald 2017

SVN graf 1 Veidigjald_2017

Svo virðist sem hækkun á veiðigjaldinu í september sl. hafi ekki ratað í umræðuna en þá tvöfaldaðist veiðigjaldið á margar tegundir frá fyrra fiskveiðiári. Þegar reiknað veiðigjald er brotið niður á hvern mánuð ársins 2017 má glögglega sjá hvaða áhrif þessi hækkun hefur í för með sér en til að mynda nam reiknað veiðigjald í september sl. 1 milljarði kr. Á yfirstandandi fiskveiðiári er áætlað að veiðigjaldið geti numið rúmlega 11 milljörðum króna sem er um tvöföldun frá síðasta fiskveiðiári. Útreikningar á veiðigjaldi yfirstandandi fiskveiðiárs byggja á rekstrarniðurstöðu ársins 2015 en margt hefur breyst frá því ári.

Verðlækkun

SVN graf 2 Verðlækkun

Ef við skoðum þær afurðir sem lækkað hafa hvað mest frá árinu 2015 má að miklu leyti rekja þá lækkun til Rússabannsins svonefnda. Til að mynda þá hefur fiskimjöl ásamt karfa-, ufsa og síldarafurðum lækkað um 40-50% í íslenskum krónum. Á sama tíma hefur myntkarfa Seðlabankans lækkað um 20% og því er ekki aðeins um gengislækkun að ræða heldur töluverða afurðarverðslækkun. Fyrirtækin og sjómennirnir hafa fundið mikið fyrir þessari þróun.

Launaþróun

SVN graf 3 Launaþróun

Samhliða mikilli gengislækkun hafa laun á Íslandi hækkað til muna. Hér er hent upp mynd sem sýnir launaþróun í norskum krónum og íslenskum. Þar sem Norðmenn eru helstu samkeppnisaðilar Íslendinga þegar kemur að sölu á fiskafurðum á erlendum mörkuðum er tilhlýðilegt að birta þá launaþróun sem verið hefur á Íslandi einnig í norskum krónum. Laun á Íslandi frá 2012 til 2017 hafa hækkað í íslenskum krónum um 43,6% en séu þau færð yfir í norskar krónur hafa laun á Íslandi hækkað um 129,3%. Þessi þróun hefur haft mikil áhrif á samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs.

Hið opinbera fær stærsta hlutinn úr grálúðutúrnum

Grálúða skipting

SVN graf 4 Grálúðaskipting

Þegar framangreind skipting verðmæta í grálúðutúr hjá frystiskipi eins og Blængi NK er skoðuð sést glögglega hve stór hlutur hins opinbera er í raun.  Hlutfall þeirra gjalda sem renna beint til ríkissjóðs og sveitarfélaga af aflaverðmæti er um þriðjungur alls aflaverðmætis umræddrar veiðiferðar. Einnig má nefna að til viðbótar við umræddan þriðjung rennur reiknaður tekjuskattur af hagnaði fyrirtækisins til ríkissjóðs og má því áætla að hlutur ríkisins geti orðið 35% af heildarverðmætum. Það sem eftir situr skiptist annars vegar milli sjómanna og hins vegar útgerðar. Hluti útgerðarinnar þarf að standa undir rekstri og fjárfestingum til frambúðar, s.s. endurnýjun tækja o.s.frv. Því má með sanni segja að stærsti hluturinn úr umræddum grálúðutúr renni til hins opinbera.

1% af tekjum ríkisins kemur frá sjávarútvegi – hefur heyrst í aðdraganda kosninga.

Hlutfall sjávarútvegs í sköttum

Ef skoðaðar eru tekjur ríkissjóðs af tryggingagjaldi, tekjuskatti og öðrum sköttum allra lögaðila á Íslandi sést að hlutfall þess sem útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki greiða er umtalsvert (hér eru ekki meðtalin fyrirtæki með afleidda starfsemi). Árið 2013 var hlutfall þessara skatta frá sjávarútvegsfyrirtækjum 16,5% af heild en var árið 2016 11,3%. Hér ber að nefna að ekki eru taldir með aðrir skattar sem sjávarútvegsfyrirtækin greiða t.d. stimpilgjöld og kolefnisgjöld. Því má ljóst vera að tekjur hins opinbera af starfsemi sjávarútvegsfyrirtækjanna er langt umfram þau 1% sem nefnd hafa verið í máli sumra frambjóðenda.

Beinir skattar vegna starfsemi Síldarvinnslunnar árið 2015 námu 0,7% af tekjum ríkissjóðs

SVN graf 5 Hlutfall_sjávarútvegs_í_sköttum

Til að átta sig á hve stórt framlag sjávarútvegsins er til samfélagsins má nefna að árið 2015 voru tekjur ríkissjóðs 686,5 milljarður kr. Það ár nam tekjuskattur, tryggingagjald, veiðigjöld, fjármagnstekjuskattur, staðgreiðsla starfsmanna og aðrir skattar Síldarvinnslunnar hf. 4,8 milljörðum kr. eða sem nemur 0,7% af tekjum ríkissjóðs. Það gefur því auga leið þegar framlag Síldarvinnslunnar er þetta hátt þá er heildarframlag sjávarútvegarins miklu hærra en 1% af tekjum ríkissjóðs, hvernig sem á það er litið.

Því miður er það alltof algengt að gert sé lítið úr framlagi sjávarútvegsins til samfélagsins og þar af leiðandi gert lítið úr framlagi þeirra sem starfa í greininni. Til marks um hversu ómaklegt slíkt er má benda á að framlag Síldarvinnslunnar og starfsmanna hennar til hins opinbera nam 1,1 milljón kr. á mánuði á hvern starfsmann árið 2016, eða samtals 13,2 milljón kr. á starfsmann það árið. Starfsmenn Síldarvinnslunnar mega því vera stoltir af sínu framlagi til samfélagsins þrátt fyrir þann tón sem nú má heyra frá ýmsum frambjóðendum nú í aðdraganda kosninga.“

Deila: