Skipið fylltist af eiturgufum og var yfirgefið

Deila:

Guðmundur Gíslason, verkstjóri hjá HG í Hnífsdal, er maður vikunnar á Kvótanum að þessu sinni. Hann hefur verið í sjávarútvegi allan sinn starfsferil. Það erfiðasta sem hann hefur upplifað var bruninn um borð í frystitogaranum Hannover á sínum tíma og fannst skrítið að fara aftur þangað um borð.

Nafn?

Guðmundur Gíslason.

Hvaðan ertu?

Úr Ísafjarðardjúpi. Fer þaðan sem krakki á Ísafjörð og hef að mestu leyti verið á Ísafirði síðan þá með smá viðviki á Akureyri í 5 ár.
Fjölskylduhagir?

Fráskilinn og á tvö börn og tvö barnabörn.

Hvar starfar þú núna?

Starfa sem verkstjóri í framleiðslu í Hraðfrystihúsinu Gunnvöru í Hnífsdal.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég er búinn að vera við sjávarútveg allt mitt líf. Byrjaði bara eins og margir 14 til 15 ára og að mestu uppalinn í Íshúsfélagi Ísfirðinga. Var  meira og minna þar þangað til 1996. En 1992 til 1994 fór ég í Fiskvinnsluskólann og lauk prófi þaðan.  1996 liggur leiðin út á sjó sem vinnslustjóri á Guðbjörginni. Fór svo með Guggunni til Samherja og var úti á sjó til 2004. Kom svo aftur  heim og réði mig sem verkstjóra hjá HG.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Ætli það sé ekki aðallega fjölbreytileikinn.

En það erfiðasta?

Það erfiðasta sem ég hef upplifað var þegar ég var um borð í Hannover, gömlu Guggunni, þegar kviknaði í skipinu. Skipið fyllist af eiturgufum og var yfirgefið. Síðan að takast á við óttann við að fara á sjóinn aftur. Ég gerði það strax og það hjálpaði mér að takast á við og komast yfir óttann.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Skrýtnast að upplifa það að fara á sjó eftir brunann á sama skipið aftur. Líðanin var stundum einkennileg og maður þurfti að takast á við hana til að geta unnið úr henni.
Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Það er Geiri Bjartar á Guggunni og Jói Jóns sem var forstjóri í Íshúsfélagi Ísfirðinga. Svo hafði ég mjög gaman af strák sem var lengi með mér á Guggunni,  hann heitir Gísli Már Ágústsson og er skemmtilegur sprelligosi.
Hver eru áhugamál þín?

Ég er íþróttaáhugamaður og mikið fyrir hreyfingu. Held mér í formi með að hlaupa og ná orku fyrir vinnuna. Var að ljúka mínu fyrsta Maraþoni fyrir nokkrum dögum. Er mikill náttúrunnandi og útivistarmaður. Hef líka mikinn áhuga á fótbolta og skák.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Svið.

Hvert færir þú í draumfríið?

Í góða ferð til Ástralíu.

 

 

Deila: