Snúum  vörn í sókn!    

Deila:

Samtök fiskverkenda og útflytjenda, SFÚ, sendu frá sér eftirfarandi yfirlýsingu á laugardag:

„Axel Helgason, formaður Landssambands smábátaeigenda (LS), hefur svarað yfirlýsingu, sem SFÚ sendi frá sér fimmtudaginn 26. október. Tilefni yfirlýsingar SFÚ var fréttaviðtal við Axel á Bylgjunni þann sama dag, þar sem ekki varð betur skilið en að hann setti fram alvarlegar ásakanir í garð kaupenda á fiskmörkuðum um samráð á markaði.

Í yfirlýsingu, sem Axel sendi frá sér síðdegis í gær, tekur hann fram að framsetning umrædds fréttaviðtals hefði ranglega gefið til kynna að hann teldi kaupendur sameinast um kaup á uppboðum fiskmarkaða. SFÚ fagna því að hér hafi verið um misskilning að ræða.

Axel tekur í yfirlýsingu sinni undir málflutning SFÚ um ástæður þess að fiskverð á mörkuðum hefur á þessu ári verið lægra á köflum en verið hefur undanfarin ár. Hagsmunir fiskframleiðenda og smábátasjómanna fara saman og snúast í kjarnann um að fiskmarkaðir hér á landi séu öflugir og verðmyndun á þeim eðlileg. Í þessu felst m.a. að mikilvægt er að framboð mæti eftirspurn og sé stöðugt.

SFÚ tekur undir með LS um að óviðunandi er að upplýsingar, sem áður voru aðgengilegar inni á uppboðsvef fiskmarkaða, hafa verið teknar út og eru ekki lengur í boði. SFÚ mótmælti þessu harðlega á sínum tíma, enda er mikilvægt að gegnsæi sé á uppboðum og viðskiptum í gegnum fiskmarkaði. Annað gefur tilefni til tortryggni og SFÚ eru reiðubúin að taka höndum saman með LS til að knýja á um aukna upplýsingamiðlun og gegnsæi á mörkuðum.

Öflugir fiskmarkaðir eru lykillinn að nýliðun í íslenskum sjávarútvegi. Mikilvægt er að stjórnvöld stuðli að eflingu þeirra með ráðum og dáð. Öflugt skref í þá átt væri að efla verulega strandveiðar með auknum kvóta gegn því að einungis sé landað á fiskmarkaði. Þá má einnig innleiða ívilnun fyrir þá sem landa á fiskmörkuðum til að tryggja aukið og stöðugra framboð inn á markaði. Þá er mikilvægt að allur fiskur sem seldur er í gegnum fiskmarkaðina og uppgjörskerfi Reiknistofu fiskmarkaðanna, sé seldur á uppboði en ekki framhjá uppboði.

Í þeim efnum verða stjórnvöld að skerpa á reglum. SFÚ fagna því að misskilningi sé eytt milli samtakanna og LS. Miklu skiptir að smærri aðilar í íslenskum sjávarútvegi standi þétt saman. Hagsmunirnir fara saman og fiskmarkaðir á Íslandi eiga undir högg að sækja um þessar mundir. Veikist fiskmarkaðirnir enn frekar er rekstraröryggi smærri fyrirtækja í sjávarútvegi stefnt í voða. Nú er lag að snúa vörn í sókn.“

Deila: