Liðka fyrir veiðum á makríl og kolmunna

Deila:

Høgni Hoydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja, hefur ákveðið að heimila flutning á fjórðungi aflaheimilda þessa árs í makríl yfir á hið næsta. Sömuleiðis hefur hann ákveðið að heimila flutning 10% heimilda í kolmunna yfir á næsta ár.

Um er að ræða heimildir sem viðkomandi skip hafa fengið úthlutað eða keypt á uppboði á þessu ári.

Þá hefur ráðherrann sent lögþinginu erindi þess efnis að gjald sem lagt er á landaðan makríl og norsk-íslenska síld, þegar aflanum er landað erlendis, verði fellt niður. Er það gert til að auðvelda skipunum að ná aflaheimildum sínum, en nú er vinnslugeta á þessum fiskafurðum í Færeyjum minni en áður þar sem Varðin Pelagic á Suðurey tekur ekki á móti fiski vegna brunans í verksmiðjunni fyrr á árinu.

Til þess að breytingarnar nái fram að ganga þarf að breyta lögum um veiðar á uppsjávarfiski og botnfiski í Barentshafi.

 

 

Deila: