Hífa sex sinnum á klukkutíma

Deila:

„Dagskammturinn hjá okkur er sex og hálft tonn á dag, 30 tonn á viku. Veiðisvæðið er reitað niður allt saman og við erum að dreifa álaginu á það eftir ákveðnu fyrirkomulagi. Þannig skráum við aflann nákvæmlega niður eftir því hvar er dregið. Það er verið að sjá hvernig þetta kemur út og segja má að um hálfgerðar hafrannsóknir sé að ræða,“ segir Sigurður Þórarinsson, skipstjóri á Leyni SH.

Þeir stunda nú tilraunaveiðar á hörpuskel frá Stykkishólmi. Þær eru liður í rannsóknum og kortlagningu skelfiskmiða eftir að veiðum var hætt fyrir rúmum áratug þegar stofninn hrundi. „Nú eru um tuttugu og tvö ár síðan ég var á skel síðast. Það var 1995 en við erum enn með sama veiðarfærið og svipaðar græjur og þá var. Það hefur lítið breyst nema nú er maður með betri bát,“ segir Sigurður.

Veiðarfærið er eins konar plógur sem dreginn er eftir botninum í fimm til 7 mínútur í einu, híft svona sex sinnum á klukkutíma, þegar mesta atið er. Það geta verið alveg upp í tvö tonn í plógnum en út úr því koma kannski ekki nema 10% af skel. Sum svæði eru betri en önnur. Þéttleiki skeljarinnar og botninn misjafn.

Þegar plógurinn er hífður er hann losaður ofan í síló aftast á dekkinu og skelin síðan sett á færiband inn í hreinsivél en síðan er það hreinsað frá sem vélin tekur ekki. Mikil leðja kemur upp með plógnum og og töluvert af krossfiski. Hann er ekki nýttur en engu að síður hirtur því hann er talinn mesti afræninginn á skelinni. Honum er því fargað í landi. „Þetta er bölvaður skaðvaldur,“ segir Sigurður. „Við reynum því að hirða sem mest af honum, sérstaklega þar sem mikið er af honum. Reyna að fækka honum og sjá hvað skeður.

Farið er út klukkan sex á morgnana og komið í land seinni partinn. „Það verður að vera búið að landa í síðasta lagi klukkan sjö. Þá er verið að miðað við vinnsluna, því skelina þarf að drepa á kvöldin svo hún sé vinnsluhæf um morguninn. Það eru fimm í áhöfn.. Við ætluðum að reyna að vera fjórir en það gekk ekki. Menn eru bara með tvær hendur.“

IMG_7264 (2)

Sigurður er ánægður með bátinn. Segir að hann sé mjög öflugur í þetta brúk og að því loknu verði farið á snurvoð. Þetta er ekki neitt neitt í dag. Það eru bata tíu karlar á tveimur bátum að veiða þetta. Þegar best lét voru þetta 70 til 80 karlar á miklu fleiri bátum. Það var mikil blóðtaka fyrir byggðarlagið þegar veiðunum var hætt.

Við verðum búnir á skelinni í síðasta lagi um miðjan janúar. Þetta er fínn veiðiskapur svona á haustin. Gaman að vera innanum eyjarnar í góðu veðri. Það „aksjón“ í þessu meðan veiðin stendur yfir. Verið að skrapa botninn og hreinsa skel allan daginn,“ segir Sigurður.
Myndir og texti Hjörtur Gíslason.

Viðtalið birtist fyrst í Sóknarfæri, blaði Athygli um sjávarútveg, sem dreift var með Morgunblaðinu.

Deila: