Beitir með þúsund tonn af Íslandssíld

Deila:

Beitir NK er væntanlegur til Neskaupstaðar í kvöld með 1.025 tonn af Íslandssíld, en þetta er fyrsti farmurinn af slíkri síld sem berst til Neskaupstaðar á vertíðinni. Síldin fékkst vestur af landinu og því er býsna löng sigling til heimahafnar. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Tómas Kárason skipstjóra í gær, en þá var skipið lagt af stað í heimsiglinguna.

„Við fengum þennan afla í fjórum holum utan við Kolluálinn, alveg út við kant. Aflinn var misjafn í holunum, allt frá 85 tonnum og upp í 580 tonn. Í stærsta holinu var dregið í tvo og hálfan tíma. Það var töluvert mikið að sjá á þessum miðum. Það sést minnst á morgnana en töluvert af síld sést þegar hún er komin niður á daginn og stórar torfur á kvöldin. Í reyndinni eru þetta dúndurlóðningar á kvöldin. Segja má að veiðin hafi gengið vel og við stoppuðum einungis í 34 tíma á miðunum. Það verður að teljast nokkuð gott,“ sagði Tómas.

Aðspurður sagði Tómas að áhöfnin hefði kannað sýnishorn af aflanum og þeir yrðu ekki mikið varir við sjáanlega sýkingu í síldinni. „Þetta virðist vera ágætis síld og meðalvigtin er um 340 grömm,“ sagði Tómas.

Börkur NK er kominn á síldarmiðin vestur af landinu og var að hefja veiðar í morgun.

Ljósm. Guadalupe Laiz

Deila: