Líkan sem aðstoðar við ákvarðanatöku í fiskvinnslu

Deila:

„Markmiðið með verkefninu mínu var að sýna fram á hvernig er hægt að nota verkfræðilega bestun við ákvarðanatöku í framleiðslu í fiskvinnslu,“ segir Elín Helga Jónsdóttir um lokaverkefni sitt í meistaranámi í rekstrarverkfræði við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík. Rætt er við hana í nýjasta Tímariti HR.

 

Elín Helga Jónsdóttir

Elín Helga Jónsdóttir

„Ég útbjó bestunarlíkan fyrir daglega áætlanagerð í fiskvinnslu. Til að gera líkanið notaði ég raungögn frá dæmigerðum vinnsludegi og prófaði það í sjávarútvegsfyrirtæki.“ Hún segir líkanið nýtast sem hjálpartæki fyrir framleiðslustjóra til að ákvarða afurðasamsetningu dagsins, þ.e. val á vinnsluleiðum.

Aukinn hraði er kominn í framleiðslu í nútíma sjávarútvegi. Háþróuð tæki og hugbúnaður eru notuð til að stýra framleiðslunni, frá því að flokka hráefnið að pökkun og þar til varan er tilbúin til afhendingar.

„Í dag geta viðskiptavinir sjávarútvegsfyrirtækja lagt inn pöntun og fengið vöruna afhenta í lok dags. Til að halda í við hraðann og dragast ekki aftur úr í samkeppni er gott að hafa hjálp við ákvarðanatökuna. Að nota líkan sem þetta virkar vel í þeim tilgangi og mun virka enn betur í framtíðinni þar sem sífellt er verið að afla gagna sem þýðir að líkönin verða enn betri.“

Til mikils er að vinna með því að nýta hráefnið betur en afurðir í sjávarútvegi eru meira en 42% alls útflutnings á Íslandi.

Deila: