Sjávarauðlind getur af sér nýja auðlind

Deila:

„Það er gömul saga og ný, að þegar peningum er eytt, sáldrast þeir niður hagkerfið. Oft er ekki ljóst hvernig fjármagnið dreifist, en samhengið er nokkuð skýrt þegar kemur að íslenskum sjávarútvegi. Auðlindin í sjónum margfaldast og getur af sér aðra og ekki síður spennandi auðlind. Á dögunum mátti lesa athygliverða frétt í www.kvotinn.is um tugmilljarða verkefni sem eru í sjónmáli. Þar er rætt við Harald Árnason, framkvæmdastjóra Knarr Maritime, sem stofnað var fyrr á þessu ári.“

Þannig skrifar Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, á heimasíðu samtakanna. Þar heldur hún áfram:

„Knarr er sameiginlegur vettvangur nokkurra íslenskra þjónustu- og hátæknifyrirtækja í sjávarútvegi. Fyrirtækin eru Brimrún sem selur fiskileitar-, siglinga- og fjarskiptabúnað í skip, Kælismiðjan Frost sem er sérhæft í kæli- og frystibúnaði, Skaginn 3X sem framleiðir vinnslubúnað í skip og landvinnslu, Naust Marine sem framleiðir vindubúnað og vindustjórnunarkerfi fyrir skip og hönnunar- og verkfræðifyrirtækin Nautic og Skipatækni sem hönnuðu 7 nýja ferskfisktogara sem komu og eru að koma til landsins á þessu ári.

Það er rétt að staldra við og spyrja: hvernig stendur á því að íslensk þjónustu- og hátæknifyrirtæki sjá fram á tugmilljarða verkefni í útlöndum? Stutta svarið er; Íslendingar eru fremstir á sínu sviði þegar kemur að sjávarútvegi. Ekki bara í veiðum, vinnslu og sölu, heldur einnig fjölmörgu öðru sem viðkemur búnaði sem til þarf, til að gera sjávarútveg arðbæran. Haraldur segir að eftir því sé tekið sem er gerast í íslenskum sjávarútvegi. Útlendingar horfi mjög til þess sem íslenskar útgerðir eru að gera, þær séu í fararbroddi í heiminum í að hámarka gæði aflans með nýjustu tækni.

Hann vonast að sjálfsögðu til að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki haldi áfram að nýta sér íslensk fyrirtæki og styrki innviði íslenskra tæknifyrirtækja til áframhaldandi sóknar. „Það er því mjög æskilegt að íslenskar útgerðir haldi áfram að styðja vel við bakið á þessum íslensku skipahönnuðum og tæknifyrirtækjum. Þekking þeirra er sprottin upp af íslenskri auðlind og er í sjálfu sér mikilvæg íslensk auðlind með mikla útflutningsmöguleika. Öll þessi tækifæri munu skapa fjölda starfa hér heima sem og erlendis enda eigum við mikið af hæfu fólki sem getur tekið að sér slík verkefni bæði til sjós og lands.“

Það er full ástæða til að hnykkja á þessu samhengi. Auðlindin í sjónum er með mjög áþreifanlegum hætti, að geta af sér aðra; það er auðlind sem felst í íslenskum þjónustu- og hátæknifyrirtækjum. Að sjálfsögðu má bæta við öflugum líftæknifyrirtækjum um allt land. Íslenskur sjávarútvegur er stoltur af sínu framlagi og gleðst með öllum þeim sem sjá tækifæri í að koma hugviti sínu í verk, svo ekki sé talað um stórfelldan útflutning á því.“

Á myndinni er Drangey SK, einn af hinum nýju togurum Íslendinga við bryggju á Akranesi. Skaginn 3X er að setja ýmsan tæknibúnað um borð í skipið.

Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

 

Deila: