Allt að 90% þorsklifrar nýtt

Deila:

Niðursuðuverksmiðjan Akraborg á Akranesi er stærsti framleiðandi niðursoðinnar fisklifrar í heiminum og framleiðir í ár ásamt verksmiðju sinni í Ólafsvík um 20 milljónir dósa. Einar Víglundsson, verksmiðjustjóri Akraborgar telur að verið sé að nýta nánast alla lifur sem til fellur við veiðar íslenskra skipa og báta.

„Kannski ekki alveg 100%, en það er helvíti nálægt því. Þar skiptir miklu máli að Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra kom á löndunarskyldu á allri þorsklifur. 85 til 90% af lifur er hirt. Sú lifur sem ekki er hirt er af frystitogurum. Ástæðan er sú að lifrin er mjög erfið í frystingu og ekki síður uppþýðingu til vinnslu. Það er búið að gera tilraunir til þess sem ekki hafa gengið upp. Lýsi hf. hefur reynt að bræða þessa sjófrystu lifur í lýsi og við höfum reynt að sjóða hana niður. Það gengur bara ekki því við uppþýðingu verður hún vatnskennd og tapar öllum sínum eiginleikum og lítið verður annað en lýsi í dósunum eftir niðursuðu. Þetta er einfaldlega ekki hægt.

Jákvæða þróunin er að frystitogurunum hefur fækkað en ísfisktogurum fjölgað og því hækkar það hlutfall lifrar sem kemur til vinnslu og útflutnings. Menn vita líka betur en áður hvernig meðhöndla skuli lifrina um borð til að skila betra hráefni í land eftir að þessi nýju glæsilegu ísfiskskip eru að koma inn í flotann. Það er staðið miklu betur að öllum hlutum en áður og menn eru mjög meðvitaðir um að þeir eru að meðhöndla matvæli. Skýringin er kannski að hluta til sú hvað við eigum mikið af vel menntuðu og áhugasömu fólki innan sjávarútvegsins.“
Ljósmynd Hjörtur Gíslason

 

Deila: