Marel með fjárfestadag í Kaupmannahöfn

Deila:

Fyrsti fjárfestadagur Marel, Capital Markets Day, var haldinn 2. nóvember síðastliðinn í Kaupmannahöfn. Yfir 100 fjárfestar og markaðsaðilar sóttu fundinn og vakti viðburðurinn mikla ánægju gesta.

Fundurinn var haldinn í Progress Point, sýningarhúsi Marel, þar sem gestir fengu yfirgripsmikla kynningu á stefnu og starfsemi Marel ásamt þeim mörkuðum sem félagið starfar á. Við lok dags var boðið upp á sýnikennslu á hátæknibúnaði sem Marel hefur nýlega kynnt fyrir kjúklingaframleiðslu.

Markmiðið með deginum var að gefa fjárfestum tækifæri til að fræðast meira um fyrirtækið en auk Árna Odds Þórðarsonar forstjóra og Lindu Jónsdóttur fjármálastjóra hélt fjölbreyttur hópur starfsmanna margvísleg erindi í þeim tilgangi að gefa breiðari sýn á starfsemi félagsins og vaxtarstefnu til framtíðar, þá spennandi vöruþróun sem unnin er í samstarfi við viðskiptavini og ekki síst þá skilvirku innviði sem styðja við frekari innri og ytri vöxt félagsins.

Marel, sem var upphaflega stofnað sem sprotafyrirtæki í fiskiðnaði árið 1977, hefur vaxið og dafnað og er nú í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, hugbúnaðar og lausna fyrir kjöt, fisk og kjúkling. Í dag er markaðsvirði Marel 239 milljarðar króna og starfsmenn þess 5.100 í 32 löndum, þar af rúmlega 600 á Íslandi.

„Fjárfestadagurinn vakti mikla lukku hjá gestum viðburðarins og er það Marel mikil hvatning til að gera fundinn að árlegum viðburði,“ segir á heimasíðu Marel.

 

Deila: