Á leið í land með íslandssíld

Deila:

Bæði Beitir og Börkur eru væntanlegir til Neskaupstaðar af síldarmiðunum fyrir vestan land. Beitir er með 1.350 tonn og Börkur kemur síðan í kjölfar hans með svipaðan afla.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti í morgun en þá var skipið nýlega komið framhjá Papey. „Við reiknum með að koma til Neskaupstaðar upp úr hádegi. Það tók nokkurn tíma að fá þennan afla. Það var bölvuð bræla fyrri hluta túrsins en þegar veðrið batnaði loksins var fínasta veiði. Við fengum aflann í sex holum og stærsta holið var 320 tonn,“ sagði Tómas.

Einnig var rætt við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki. „Við höfum verið frekar heppnir í túrnum og svo var ágætis veiði í gær og töluvert að sjá. Við hófum veiðar utarlega í Kolluál en síðan var veitt í Jökuldýpinu,“ sagði Hjörvar.

Á myndinni eru Beitismenn að störfum á síldarmiðunum.
Ljósm. Guadalupe Laiz

 

 

 

Deila: