Einn góður dagur

Deila:

Venus NS og Víkingur AK eru bæði komin í höfn á Vopnafirði eftir að hafa leitað að kolmunna í veiðanlegu magni austsuðaustur af Færeyjum. Er rætt var við Guðlaugs Jónsson, skipstjóra á Venusi af heimasíðu HB Granda, um miðja vikuna, ætluðu menn að gefa sér daginn í leit áður en haldið yrði heimleiðis til löndunar.

Svo sem fram kom hér á síðunni fyrir helgi urðu Venus og Víkingar að leita hafnar í Kollafirði í Færeyjum vegna óveðurs á miðunum. Guðlaugur segir að skipin hafi komist úr höfn sl. laugardag í þokkalegu veðri.

,,Það var hins vegar bræla á miðunum og þannig er það búið að vera með þeirri undantekningu að það var ágætis veður á þriðjudag. Nú er komin bræla aftur og það er spáð enn verra veðri. Ef við finnum ekkert fljótlega þá höldum við heimleiðis. Það verður engin skemmtisigling miðað við veðurútlitið,“ sagði Guðlaugur en honum reiknaðist þá til að afli skipsins væri um 750 tonn. Sæmilega aflaðist sl. þriðjudag en hluti aflans var frá fyrstu dögum veiðiferðarinnar. Venus og Víkingur héldu frá Vopnafirði fyrir rúmri viku.

,,Það er fiskur í færeysku lögsögunni en vandinn er bara sá að hitta á hann í þessu veðri,“ sagði Guðlaugur Jónsson en bæði Venus og Víkingur eru útbúin með mjög öflugu kælikerfi fyrir aflann og geta því verið lengur að veiðum í hverri veiðiferð en gömlu skipin gátu.

Deila: