Vel heppnuð endurreisn þorskstofnsins

Deila:

„Þar sem sjávarútvegur er mikilvæg stoð efnahagslífs okkar áttum við Íslendingar engan annan kost en að takast á við tvíþættan vanda ofveiði og óhagkvæmni af fullri alvöru. Þetta var gert með því að innleiða markvissa fiskveiðistjórnun með nauðsynlegri festu við ákvörðun leyfilegs heildarafla ásamt eftirfylgni með aflaskráningu og eftirliti. Þannig var kerfi aflakvóta við stjórn fiskveiða komið á í áföngum á níunda áratug síðustu aldar og það síðan þróað í átt til virkari stjórnunar heildarafla og aukins sveigjanleika með framsali á tíunda áratugnum og síðar.“ Svo skrifar Dr. Kristján Þórarinsson, stofnvistfræðingur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í pistli á heimasíðu samtakanna. Þar skrifar hann ennfremur:

„Í kjölfar ráðgjafar frá árinu 1992 um alvarlega stöðu þorskstofnsins var dregið verulega úr veiðiálagi. Um miðjan tíunda áratuginn voru Íslendingar síðan meðal leiðandi þjóða í þróun langtíma aflareglna í fiskveiðum. Aflareglum er ætlað að tryggja að veiðiálag sé hóflegt og nýtingin sjálfbær. Mikilvægt markmið með minnkun veiðiálags á þorskinn var að gera stofninum mögulegt að vaxa og ná fyrri stærð. Stór veiðistofn gerir veiðar hagkvæmari og stór og fjölbreyttur hrygningarstofn er talinn hafa meiri möguleika á að geta af sér stærri nýliðunarárganga.

Árið 2007 var veiðihlutfall þorsks samkvæmt aflareglu lækkað úr 25% í 20% af viðmiðunarstofni fiska fjögurra ára og eldri. Eftir stutt aðlögunarskeið var þessi stefna fest í sessi um mitt árið 2009 þegar íslensk stjórnvöld staðfestu á ný formlega aflareglu um stjórn veiðanna til lengri tíma. Nýtingarstefna þessi miðar að vernd og sjálfbærri nýtingu þorskstofnsins, byggt á bestu fáanlegri vísindaráðgjöf, í samræmi við alþjóðasamninga og alþjóðleg viðmið. Það er afar sannfærandi að nýtingarstefnan skuli hafa haldið í kjölfarið í gegnum fjármálakreppuna og þannig lagt sitt af mörkum til efnahagsbatans.

Með hóflegu veiðiálagi undanfarin ár hafa þorskárgangar hver af öðrum lifað lengur og tekið út meiri vöxt og þannig gefið meiri afla og lagt meira til hrygningarstofnsins en ella. Úr því takmarkaða efni sem felst í tiltölulega litlum árgöngum hefur hrygningarstofninn, sem eðli málsins samkvæmt er samsettur af eldri fiski, tvöfaldast að stærð á undanförnum áratug. Stærri stofni fylgir aukinn afli á sóknareiningu (t.d. fleiri tonn á hvern togtíma), sem skilar sér í aukinni hagkvæmni veiðanna. Jafnframt leiðir stærri stofn til minni áhættu af veiðum, sem aftur stuðlar að sjálfbærri nýtingu.

SFS Íslenski þorskstofninn

Á nýliðnum árum hafa stjórnvöld sett aflareglur um veiðar þriggja tegunda botnfiska—ýsu, ufsa og gullkarfa—til viðbótar við þorskinn. Þessar veiðar hafa síðan fengið vottun eftir alþjóðlegum sjálfbærnikröfum samkvæmt fiskveiðistjórnunarstaðli Ábyrgra fiskveiða, sem gerir kröfu um formlega nýtingarstefnu (aflareglu) stjórnvalda byggt á svokallaðri varúðarleið. Sömu veiðar, auk annarra, hafa einnig hlotið vottun samkvæmt MSC-staðli.

Ábyrg, sjálfbær og hagkvæm nýting fiskistofna er nauðsynleg undirstaða öflugs sjávarútvegs. Mikilvægt er að nýting fiskistofna á Íslandsmiðum byggist ávallt á þessum grunni.“

 

 

Deila: