Alltaf fundist gaman í vinnunni

Deila:

„Skipstjórinn býður greinarhöfundi skjól fyrir snjóbylnum sem tekið hefur yfir í þorpinu okkar góða. Snjórinn breytir ásýndinni þannig að allt verður ókunnugt en Bergur Einarsson skipstjóri á Hoffelli SU 80 er greinarhöfundi vel kunnugur og tekur hlýlega á móti gestinum.“ Þannig hefst viðtal við Berg Einarsson, Skipstjóra á Hoffelli á Fáskrúðsfirði. Viðtalið er birt á heimasíðu Loðnuvinnslunnar.

Miðvikudaginn 6.des kom Hoffellið að landi með u.þ.b. 460 tonn af síld.  Er síldin af stofni sem kallast íslensk síld sem þýðir að hún er uppalin á íslensku hafsvæði og kemur úr íslensku sumargotssíldinni.  Er síldin öll unnin til manneldis hjá Loðnuvinnslunni.  Aðspurður að því hvort að veðrið hefði verið vont á miðunum í nýliðnum túr sagði Bergur að það hefði verið hálf leiðinleg ferðaveður en það hefði verið fínt á meðan á veiðunum stóð.  „Við þurftum reyndar að bíða í eina tuttugu tíma fyrir utan Keflavík áður en við gátum hafið veiðarnar en svo gekk bara vel þegar þær hófust“ sagði Bergur.

Bergur Einarsson

Bergur Einarsson

Bergur Einarsson er fæddur og uppalinn á Fáskrúðsfirði.  Hann er fæddur í húsi sem ber nafnið Bjarmaland og stendur við Hamarsgötu 9.  Þegar hann er spurður að því hvort að hann hafi verið baldinn krakki svarar hann um hæl: „já“ og er ekkert að orðlengja það meir.  En þegar æskuárin eru rifjuð upp kemur hann greinarhöfundi fyrir sjónir sem atorkusamur og tápmikill drengur.  Hann vildi gjarnan leika sér á bryggjunum og í fjörunni eins og krakka var siður hér áður fyrr.  „Þá fór líka svo mikil vinna fram á bryggjunum þannig að það var alltaf fólk á ferðinni.  Nú er öll þessi vinna unninn innandyra og ekki nokkur maður á bryggjum að vinna lengur“  segir Bergur.  Hann rifjar líka upp að móðir hans hafi haft áhyggjur af honum þegar hann var „hangandi á bryggjunum“ alla daga, saga sem margar mæður kannast við og margar manneskjur af sömu kynslóð og Bergur muna eftir að hafa lítið skilið í því hvílíkt uppnám foreldrar gátu komist í aðeins af því að menn héngu neðan í einhverjum planka undir bryggju, eða væru siglandi á illa fljótandi flekum.  Foreldrar Bergs byggðu svo hús við miðbik þorpsins og þaðan var gott útsýni niður á bryggju svo auðvelt var að fylgjast með ferðum hans þar.  „Ég man hvað ég var feginn þegar Kaupfélagið byggði húsið við Skólaveg 59 og síðan Landsbankinn, þá hætti mamma að sjá niður á bryggju.  Svo verður maður foreldri sjálfur og skilur þetta allt miklu betur“ segir Bergur og við brosum bæði angurvær enda bæði verið í þeirri stöðu að finnast það mannréttindi að fá að hanga undir þarablautri bryggju í leit af dúfuhreiðri og verið áhyggjufullt foreldri .  Hann segist líka muna eftir því að hann hafi lítið komið við heima þegar það var mikið að brasa úti við. „Þá fór maður bara heim ef maður var svangur eða blautur“ rifjar hann upp hlæjandi.

Varstu alltaf ákveðinn í að gera sjómennsku að ævistarfi?  Bergur svarar því neitandi, „það bara æxlaðist svona“ segir hann  „ég flosnaði uppúr skóla þegar ég var fimmtán ára og fór á sjó.  Fyrst á Sólborgina, svo á Álftafellið og síðan á skuttogarana Ljósafell og Hoffell“.  Þegar Bergur er 21 árs ákveður hann að fara í Stýrimannaskólann enda búinn að ákveða þá að þar skildi starfsferillinn vera.  Að skólanum loknum, árið 1998,  er hann ráðinn sem stýrimaður á  uppsjávarskipið Hoffell  (sem í daglegu tali er gjarnan kallað gamla Hoffellið) og níu mánuðum síðar verður hann skipstjóri og hefur gengt því starfi síðan.  „Það var auðvitað meiriháttar traust af hálfu Loðnuvinnslunnar að veita mér starfið aðeins 28 ára gamall“.  Og talið berst að þessum tveimur Hoffellum sem hann hefur haft undir sinni stjórn.  Hann segir að miklar breytingar hafi orðið á þessum árum.  Fyrst þegar gamla Hoffellið var lengt og með því skapaðist betri aðstaða til veiða og síðan þegar nýja Hoffellið kom sem hefur reynst afar vel.  Laust við áföll og fiskast vel.  „Það bara datt allt í gang og hefur mallað síðan“ segir hann.   Bergur segir líka að honum hafi alltaf þótt gaman í vinnunni.  Hann segir að starfið sé fjölbreytt í þeim skilningi að það sé verið að veiða mismunandi afla á mismunandi veiðafæri og í því felist tilbreyting.

Það hlýtur að vera óhjákvæmilegt að spyrja mann sem hefur eytt jafn mörgum dögum út á sjó, fjarri ástvinum og heimili sem raun ber vitni, hvort að það sé aldrei erfitt?   Skipstjórinn er fljótur til svars og segir: „Jú, það er oft erfitt, sér í lagi þegar börnin voru lítil en ég fékk að kynnast því almennilega hvernig það er að vinna í landi þegar ég var í skólanum og sonur minn var lítill, þá vaknaði maður á morgnana og fylgdi honum í leikskólann og sótt hann aftur.  Þetta er mér dýrmætt.  Þessir hlutir hversdagsins fara að miklu leiti framhjá manni þegar maður er alltaf út á sjó.  Svo finnst mér oft vanmetið hvað bakland sjómanna er mikilvægt.  Eiginkonan sem heldur öllu gangandi heimafyrir þegar menn eru lengi að heiman“.

Nú er Bergur orðinn afi og því hlutverki langar hann að sinna vel.  Hann segir greinarhöfundi frá því að stór-fjölskyldan ætli að eyða jólunum á sólarströnd að þessu sinni.  „Ég var pínu tregur í fyrstu því mér finnst að jólin eigi að vera rólegur tími heimafyrir og þegar hangikjötslyktin berst úr pottinum á Þorláksmessu þá finnst mér jólin vera komin“.  Þú tekur bara hangikjöt með þér í sólina lagði greinarhöfundur til en Bergur sagði það ekki vera á sinni könnu að ákveða það.  „Ég pakka niður sundbuxunum mínum og snyrtitöskunni, Jónína mín sér um hitt“ segir hann kankvís og við verðum sammála um að það muni ekki fara fram hjá honum ef hangikjötsilmurinn fer að berast um sundlaugargarðinn.

Veiðimennska er Bergi ef til vill í blóð borin því að ekki aðeins hefur hann veiðimennsku að atvinnu heldur líka sem tómstundir.  Hann hefur gaman af skotveiði og stangveiði og hefur líka mikla ánægju af því að fara til fjalla.  Hann kann að meta hafið, fjöllin og árnar.

Líkt og margir sem eru í nánu samneyti við náttúruna er skipstjórinn hjátrúarfullur á einhverju sviði.  Hann tekur skipið ávallt frá bryggju í réttan sólargang.  Þrátt fyrir að oft sé einfaldara að fara „öfugan hring“ gerir hann það ekki og ef það reynist alger nauðsyn  þá tekur hann aukahring út á firði með réttum sólargangi.  Ástæðuna kvað hann vera þá að eitt sinn hafi vélstjórinn beðið hann að taka nokkuð vel á hliðarskrúfunum þegar hann færi frá bryggju sem hann og gerði og það í „öfuga átt“. Þá hafi verið um borð reyndur sjómaður sem sagði að þetta væri nú ekki nógu gott því það boðaði ógæfu að fara ekki réttan sólargang.  „Og það gekk allt á afturfótunum, þetta var alger bras túr“ sagði Bergur og bætti því við að síðan héldi hann þessum sið því það væri óþarfi að storka örlögunum.  Og að þeim orðum sögðum kvaddi greinarhöfundur skipstjórann Berg enda heimasætan komin heim og á dagskrá hjá þeim feðginum var notaleg samvera inni í hlýjunni þó úti öskraði hríð.

BÓA

 

Deila: