HB Grandi hlýtur loftslagsviðurkenningu Reykjavíkurborgar og Festu
Viðurkenningar fyrir árangur í loftslagsmálum voru afhentar á loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar í Hörpu sem haldinn var á föstudag.
Afhentar voru þrjár viðurkenningar, Loftlagsviðurkenning, Hvatningarviðurkenning og viðurkenning fyrir upplýsingamiðlun og fræðslu um loftlagsmál. HB Grandi hlaut Loftslagsviðurkenningu, en Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri HB Granda tók við henni í Hörpu fyrr í dag. Dagur B. Eggertsson, Borgarstjóri og Fanney Karlsdóttir formaður Festu afhentu viðurkenningarnar og nefndu sérstaklega kolefnisbókhald HB Granda sem sýnir 5% lækkun á losun gróðurhúsalofttegunda milli ára, þá ákvörðun að HB Grandi hafi alfarið hætt notkun svartolíu og sorpflokkunarstöðvar fyrirtækisins sem eru á öllum starfsstöðvum félagsins.
„Það er okkur heiður að taka á móti þessari viðurkenningu. Loftslagsmál og umhverfismál almennt hafa lengi vel verið okkur mikilvæg og í raun grunnurinn af okkar starfsemi“, sagði Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri HB Granda við móttöku viðurkenningarinnar.
Viðurkenningarnar þrjár voru veittar í fyrsta skiptið nú í ár, en auk Loftslagsviðurkenningarinnar sem HB Grandi fékk, hlaut ISAVIA Hvatningarviðurkenningu, vefurinn loftslag.is hlaut viðurkenningu fyrir Upplýsingamiðlun og fræðslu um loftslagsmál en vefurinn hefur frá árinu 2009 miðlað efni um loftslagsmál.
Á myndinni eru Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, Fanney Karlsdóttir, formaður Festu og Dagur B. Eggertsson, Borgarstjóri